Pistill forseta ASÍ - Hreyfing með byr í seglum

Verkalýðshreyfing sem nýtur ekki trausts sinna félagsmanna er lítils megnug enda fer aflið og slagkrafturinn eftir virkni og vilja félaganna. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá hverja könnunina á eftir annarri sem sýnir vaxandi stuðning við störf hreyfingarinnar. Nú síðast birtu Eining-Iðja á Akureyri og AFL starfsgreinafélag á Austurlandi niðurstöður skoðanakannana þar sem allt ber að sama brunni. Félagsmenn styðja sitt stéttarfélag, eru sáttir við störfin og telja félagið sitt standa með sér. Fyrr á þessu ári fengum við niðurstöður um traust gagnvart ASÍ, en það fer vaxandi svo um munar. Hreyfing vinnandi fólks hefur verið fyrirferðarmikil á árinu sem er að líða og haft áhrif í stóru sem smáu, ekki aðeins varðandi kaup og kjör heldur í stórum samfélagsmálum. Þar má nefna húsnæðismál, skattamál og vaxtamál svo eitthvað sé nefnt.

Við höfum átt starfssamt ár en næsta ár verður ekki síður fullt af verkefnum og áskorunum. Enn á eftir að vinna úr fjölmörgum atriðum er lúta að kjarasamningunum og yfirlýsingum stjórnvalda frá því í vor. Svo ber að nefna að opinberir starfsmenn eiga enn eftir að semja við ríki og sveitarfélög. Þeir starfsmenn hafa nú verið samningslausir í níu mánuði sem er nánast fordæmalaust. Auk þessara mála mun Alþýðusambandið leggja áherslu á fræðslumál, breytingar á vinnumarkaði í framtíðinni og umhverfismál á nýju ári. Sem sagt, allt samfélagið undir eins og fyrri daginn.

Þegar svona risavaxin verkefni eru á borðinu er gott að finna stuðning félagsmanna og ég hvet vinnandi fólk hvar sem er til að taka þátt í starfsemi síns stéttarfélags, láta í sér heyra og leggja sitt á vogaskálarnar fyrir betra samfélagi. Verkalýðshreyfingin byggir ekki á einstaklingum heldur samstöðu margra. Aðeins þannig hefur árangur náðst.

Ég óska launafólki og landsmönnum öllum gleðilegra jóla, þakka fyrir gott og gjöfult ár og brýni okkur til góðra verka á nýju ári.

Drífa