Pistill forseta ASÍ: Förum ekki í sama farið – byggjum upp heilbrigðari atvinnugrein

Nú er beðið eftir að ferðaþjónustan fari á fullt aftur og greiningardeildirnar hamast við að finna tímasetninguna. Verður það næsta sumar eða ekki fyrr en næsta haust? Hvenær verður hægt að endurræsa ferðaþjónustuna? Í umræðunni liggja væntingar um afturhvarf til þess sem var; góðærisins, gjaldeyristeknanna og hás atvinnustigs. Og vissulega litu efnahagsreikningarnir betur út fyrir ári síðan. En það er eitt sem gleymdist í allri stefnumótun stjórnvalda varðandi ferðaþjónustuna - starfsfólkið. Ferðaþjónustan byggir, umfram margar aðrar greinar, á fjölda starfsfólks, viðmóti þess og þjónustulund. Nú er lag að fara ekki í sama farið heldur endurræsa þessa mikilvægu atvinnugrein á skynsamlegri nótum en áður. Það er ekki náttúrulögmál að ferðaþjónustan sé láglaunaatvinnugrein með ótryggum ráðningarsamböndum og ótrúlegum fjölda kjarasamningsbrota.

Alþýðusambandið hefur gefið út árherslur um uppbyggingu ferðaþjónustunnar á nýjum grunni þar sem þess er krafist að hagsmunir launafólks verði einn af hornsteinum starfsins Að í ljósi mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskt hagkerfi verði að mynda sátt um bætt kjör og aðbúnað starfsfólks enda verður arðsemi og sjálfbærni ekki náð örðuvísi. Lyfta verður grettistaki í að uppræta bortastarfsemi sem því miður hefur verið allt of tíð í ferðaþjónustunni. Þar ber hæst atvinnuöryggi og að þeir atvinnurekendur sem brjóta á fólki verði gerðir ábyrgir.
Nýtum tímann áður en ferðaþjónustan fer á fullt skrið og búum í haginn fyrir ábyrga, mannúðlega og skynsama atvinnugrein. Fyrsta skrefið í því er að leggja áherslu á starfsfólk í allri stefnumótun.

Hér má kynna sér áherslur ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Góða helgi,
Drífa