Í upphafi síðustu aldar töldu ýmsir að kosningaréttur kvenna væri lykillinn að kvenfrelsi. Síðar vöktu lög um jöfn laun fyrir sömu störf svipaðar væntingar. Konur fóru í stórum stíl út á vinnumarkað og þau störf sem áður voru unnin ólaunað heima voru orðin launuð störf. Þessi störf voru og eru hins vegar vanmetin til launa – ekki alveg alvöru störf - ekki svona mikilvæg eins og sum önnur störf sem lengur hefur tíðkast að greiða fyrir. Til að auka verðmæti kvennastarfanna var menntastigið hækkað og konur þustu í nám. Í raun er eina leið kvenna til að hafa möguleika á að framfleyta sér og börnum sínum að mennta sig á meðan í boði eru vel launuð hefðbundin karlastörf sem krefjast ekki menntunar. Ójafnt hlutfall kynjanna í háskóla er því ekki endilega birtingamynd á vanda karla eða drengja heldur vanda vinnumarkaðar sem metur ekki konur að verðleikum.
Nú birtast upplýsingar úr tekjusögunni sem sýna að vel menntaðar konur eru á pari við minna menntaða karla í launum. Þetta er afleiðing hins skipulega vanmats á kvennastörfum sem er svo rótgróið í okkar menningu að við erum hætt að taka eftir því. Af hverju erum við í þessari stöðu á sama tíma og við státum okkur af árangri í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi? Svarið við því er meðal annars að finna í umræðunum um fæðingarorlofið þar sem sum héldu því fram að við hefðum náð svo langt í jafnrétti að handaflsaðgerðir væru orðnar ónauðsynlegar. Það er langt í frá og ekkert sem bendir til þess að jafnrétti sé að aukast. Þvert á móti hefur skýrasta mælingin á misrétti – launamunur kynjanna – staðið í stað síðustu ár. Við höfum enn verk að vinna að breyta menningunni til kvenfrelsis og við skulum byrja á því að meta störf kvenna með réttum hætti.
Góða helgi,
Drífa