Pistill forseta ASÍ

Það er fullt tilefni til að senda baráttu- og stuðningskveðjur inn í þær viðræður sem nú eru í gangi innan stóriðjunnar en starfsfólk bæði hjá Norðuráli og í Straumsvík hafa boðað til verkfalla. Í Norðuráli hefjast verkföll 8. desember ef ekki tekst að semja en í fyrradag samþykktu félagar í fimm af sex stéttarfélögum í Straumsvík að hefja skæruverkföll 16. október og allsherjarverkfall 1. desember. Verkföll eru neyðarúrræði starfsfólks til að þrýsta á um kjarasamninga og það er á ábyrgð stjórnenda álveranna að mæta sanngjörnum kröfum starfsfólks sem eru í takt við það sem samið hefur verið um annars staðar. Ég hvet starfsfólk til dáða og fullvissa það um stuðning ASÍ í erfiðum deilum.

Þessa dagana reynir á okkur öll í sóttvörnum en besti árangurinn hefur náðst þegar það samtakamátturinn er virkjaður og allir leggjast á eitt. Þegar daglegu lífi eru settar skorður þarf að gæta þess afar vel að ekki sé þrengt að fólki meira en nauðsyn er. Fréttir hafa borist af því að fyrirtæki hlutist til um hverja starfsfólk megi hitta í sínum frítíma og jafnvel að skikka fólk í launalausa sóttkví ef ekki er farið að reglum fyrirtækja umfram almenn tilmæli stjórnvalda. Slíkt er ólöglegt!
Fyrirtæki geta ekki skert ferða- eða persónufrelsi umfram það sem stjórnvöld gera og ég hvet launafólk til að hafa strax samband við sitt stéttarfélag ef fyrirtæki sýna tilburði í þessa átt. Ástandið núna má ekki verða til þess að vega að mannréttindum eða að atvinnurekendur taki sér vald yfir einkalífi starfsfólks.

Komumst út úr kófinu með samstilltu átaki og samtakamætti en ekki valdboðum! Þvoum, sprittum og leitum lausna.

Góða helgi,
Drífa