Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kom saman til fundar í dag föstudag til að meta stöðuna í
kjaraviðræðum. Í samninganefnd SGS sitja formenn allra aðildarfélaga sem veitt hafa sambandinu umboð í komandi kjarasamningum. Um morguninn fór fram
fyrsti samningafundur við SA undir verkstjórn ríkissáttasemjara, en deilunni var vísað þangað í upphafi mánaðarins. Greint var
frá umræðum á samningafundinum og var það skýr niðurstaða samninganefndar SGS að hugsa kjarabaráttuna sem nú stendur yfir til
þriggja ára eins og kröfugerð SGS gerir ráð fyrir, en í henni er skýr krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan
þriggja ára. Önnur landssambönd og stéttarfélög leggja til skammtímasamninga til eins árs en ljóst er að þau viðmið
sem SGS setti fram í sinni kröfugerð er gegnumgangandi í kröfum annarra félaga þó mismunandi áherslur séu varðandi
útfærslur og tímaramma.
Það var skýrt um leið og SGS kynnti sínar kröfur fyrir SA í lok janúar að á brattann yrði að sækja og urðu
viðbrögð SA þess valdandi að deilunni var strax vísað til sáttasemjara. Allar götur síðan hafa félög innan SGS
undirbúið sig undir hugsanleg verkfallsátök og sá undirbúningur hélt áfram hjá samninganefnd í dag. Félögin hafa einnig
nýtt tímann til að halda félagsfundi og ljóst er að mikill hugur er í verkafólki um allt land að sækja fram og berjast fyrir hækkun
krónutölu í grunnlaun.