Öllum tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing

Samkomulag hefur náðst milli stjórnvalda og heildarsamtaka vinnumarkaðarins um hvernig framlög úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða skuli háttað. Þetta samkomulag mun því binda enda á þá óvissu sem hópar sem standa utan vinnumarkaðar hafa þurft að sæta um þjónustu hjá VIRK- starfsendurhæfingarsjóði. Samkomulagið tryggir að öllum sem á þurfa að halda er nú tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing til að verða virkir á vinnumarkaði. Félags- og húsnæðismálaráðherra mun fá fulltrúa í stjórn VIRK.

VIRK fagnar þessu samkomulagi en Hannes G. Sigurðsson, formaður stjórnar VIRK, skrifaði undir það í gær ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hannes segir það mjög ánægjulegt að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin taki höndum saman um að tryggja öllum starfsendurhæfingu því það sé ávísun á betri vinnumarkað. Fólk sem hafi lokið starfsendurhæfingu sé dýrmætt fyrir atvinnulífið því kraftar þess geti nýst vel. Óvænt áföll vegna veikinda eða slysa setji oft strik í reikninginn en VIRK hjálpi fólki að bæta líf sitt, nýta styrkleika sína og komast út á vinnumarkaðinn á ný.

Ráðgjafar í starfsendurhæfingu

Á Eyjafjarðarsvæðinu starfa fimm ráðgjafar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, þau, Elsa, Hildur Petra, Nicole, Svana og Ágúst. Þau eru starfmenn Einingar-Iðju, en starfa fyrir öll stéttarfélög á svæðinu. Þau eru með aðsetur á skrifstofu félagsins á 2. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri.

ATHUGIÐ!

  • Hildur Petra er með fasta viðveru á skrifstofu Einingar-Iðju í Fjallabyggð á miðvikudögum.
  • Elsa er með fasta viðveru á skrifstofu Einingar-Iðju á Dalvík á þriðjudögum.
  • Ágúst er í 20% starfi hjá félaginu frá 1. janúar 2015 og út júní.