Oft var töluverður munur á kílóverði af fiskmeti í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var miðvikudaginn 4. maí sl. Algengast var að 20-40% munur væri á kílóverði af fiski í könnuninni. Í 13 tilfellum af 27 var 600-800 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði og í jafn mörgum tilfellum nam verðmunurinn 900-1.200 krónum. Sem dæmi um mikinn verðmun má nefna 58% mun á hæsta og lægsta kílóverði af þorskflökum, 107% mun á kílóverði af rauðsprettuflökum, 65% mun á kílóverði af fiskrétti með löngu og 52% mun á kílóverði af plokkfiski.