Í nóvember útgáfu af mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar er að finna umfjöllun um húsnæðismarkaðinn og áhrif vaxta á lán heimila og fyrstu kaupendur. Einnig er þar að finna umfjöllun um nýlega vaxtahækkun Seðlabankans. Ritið má nálgast í heild sinni hér.
17,1% árshækkun íbúðarverðs
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% í október samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Húsnæðisverð hefur því hækkað um 4,3% síðustu þrjá mánuði og um 17,1% undanfarna tólf mánuði. Árshækkun húsnæðis hefur því ekki mælst meiri frá í október 2017. Raunverð húsnæðis er í sögulegum hæðum og hefur stigið hratt á þessu ári og töluvert umfram launaþróun. Þar hefur verð á sérbýli hækkað töluvert umfram verð á fjölbýli frá áramótum. Skýrist þróunin af mörgum þáttum, m.a. hagfelldum vaxtakjörum og litlu framboði af húsnæði.