Félagið óskar starfsmönnum Samherja og Samherja til hamingju með að búið sé að taka í notkun nýtt hátæknivinnsluhús á Dalvík.
Á vef Samherja segir m.a. um húsið: "Það er óhætt að fullyrða að um sé að ræða eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu. Er vinnsluhúsið raunar það eina sinnar tegundar vegna þeirrar tækni og þess búnaðar sem er í því.
Framkvæmdir og þróun á búnaði í húsinu, sem er 9.000 fermetrar, hafa staðið yfir undanfarin fjögur ár. Um er að ræða meiriháttar fjárfestingu sem mun skipta miklu máli fyrir samfélagið á Dalvík og sjávarútveginn á Íslandi almennt. Heildarfjárfesting nemur um sex milljörðum króna og er um helmingur fjárfestingarinnar vegna tækja og hugbúnaðar.
Í húsinu eru vinnslulínur frá Völku, flökunarvélar frá Vélfagi, hausarar frá Baader Ísland, lausfrystar frá Frost, stöflunarróbótar og róbót sem losar kör frá Samey. Að auki er búnaður frá Skaganum 3X, Marel, Raftákn, Slippnum og fleiri íslenskum fyrirtækjum.
Tækin í húsinu og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim er afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu þau. Í reynd er um að ræða nýjar, sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Stjórnendur Völku og annarra sem þróuðu tækin í húsinu, binda vonir við að húsið muni nýtast við markaðssetningu á tækjunum, ekki síst erlendis. Munu erlendir gestir heimsækja húsið á næstu mánuðum og árum til að skoða tækin með hugsanleg kaup í huga frá þessum íslensku hátæknifyrirtækjum."