Eðvarð afturhald VI
Eðvarð var uppfullur af orku og gleði eftir að hafa gert sér ferð í bæinn. Það var ekki oft sem hann kom núorðið til Reykjavíkur. Stóri ameríski drekinn fór ekki vel innan um allar þessar þrengingar sem voru á ábyrgð spjátrunganna í ráðhúsinu sem ýmist skálduðu eigin eftirnöfn eða kenndu sig við móður sína. Hann var einnig óöruggur að keyra innan um fávitana á reiðhjólunum og sama hvað hann gerði virtist hann fá stöðumælasekt. Og það sem verra var að í þetta sinn var það einn af þessum nýju bindislausu anarkistum á þingi sem sektaði hann! Eðvarð lét þingmanninn að sjálfsögðu vita að hann væri þungavigtarmaður í sínu kjördæmi og hann myndi leggja inn gott orð fyrir anarkistana ef að sektin fengi að hverfa.
Fyrirlitningin í háværum hlátri anarkistans sem yfirgaf Eðvarð án þess að virða tilboð hans með efnislegu svari sat ennþá í Eðvarði þegar hann komst loksins á fundinn um „Inngrip stjórnvalda á mörkuðum“. hjá gamla góða Verzlunarráði Loksins voru áherslurnar á réttum stað. Eðvarð hafði reyndar boðist til að taka þátt í pallborðsumræðum enda höfðu ítrekuð ríkisafskipti skattsins, stéttarfélaganna og lífeyrissjóðanna kostað hann stórfé í gegnum tíðina. Því var hafnað en Eðvarði var þó boðið að koma í smá móttöku fyrir fundinn enda að eigin mati einn af dáðustu sonum íslensks viðskiptalífs. Hann hafi átt tugi ef ekki hundruð félaga í gegnum tíðina sem voru ýmist lifandi, sofandi eða dáin. Í móttökunni hjá verslunarráði hitti Eðvarð marga þjáningarbræður sína sem tóku fljótt við, líklegast of fljótt, að blanda sjeneverinu og kveikja í vindlunum.
Þegar félagarnir komu trallandi út nokkrum tímum síðar með nokkur prómill í blóðinu og vígreifir eftir fundinn um hið hræðilega ríkisvald og glæpi þess gagnvart atvinnulífinu, mætti honum blaðasnápur sem hann hafði eitt sinn þurft að reka af eigninni sinni eftir að hann gerðist full ágengur í spurningum sínum um mál slóvakískra ungmennanna sem að mati Eðvarðs náðu ekki að temja sér íslenskt vinnusiðferði og vanvirtu í leiðinni íslenskar fornbókmenntir. Blaðasnápurinn þekkti Eðvarð um leið og stökk á hann með spurningar um stöðuna í máli slóvakísku ungmennanna. Spurningarnar runnu einhvern veginn saman í eyrum Eðvarðs og honum varð um leið hugsað til samtals við almannatengil sem hann hafði hitt á Rótarí fundi er hann var var í því kunnuglegu ástandi sem hann var nú í. „Það eina sem ég hef um málið“, sagði Eðvarð „er eftirfarandi:. Þetta var rosalega skemmtilegur dagur og flottur fundur. Ég heyrði í formanninum fyrir kvöldmat og þá var hann keikur og hress. Ég veit að hann er bara með sinni konu í kvöld að tjilla, eins og unga fólkið segir. Hann var mjög hress. Það er búið að girða niður um verkalýðsforingjann og bókasafnsvörðinn – pjattrófuna með síða hárið. Þeir standa eins og álfar út úr hól og vita ekkert hvað er að gerast!“
„Ertu ölvaður Eðvarð?“, spurði blaðasnápurinn steinrunninn af undran eftir yfirlýsingu Eðvarðs. Daginn eftir þegar Eðvarð var að reyna að komast út úr borginni en sat fastur í einhverri helvítis þrengingunni heyrði hann í þvoglumæltum sjálfum sér í útvarpinu og svo einhverja spjátrunga hlægja í kjölfarið. Eðvarð teygði sig í sprengitöflurnar og skolaði þeim niður með gúlp-sopa af Canada-Dry. Eins gott að það var ekki fundur í Rótarí fyrr en í næstu viku og guð sé lof hvað landinn er fljótur að gleyma, hugsaði Eðvarð og slökkti á útvarpinu.