Fyrir helgi undirrituðu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, og Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, nýjan samstarfssamning um þjónustu Fjölsmiðjunnar á Akureyri fyrir árið 2021. Markmið samningsins er að efla Fjölsmiðjuna í hlutverki sínu sem starfsþjálfunarstaður fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Ennfremur að auka tengsl og samvinnu Fjölsmiðjunnar og starfsfólks sveitarfélagsins sem vinnur með ungu fólki.
Fjölsmiðjan veitir ungu atvinnulausu fólki vinnu með það að markmiði að hver einstaklingur njóti sín og verði færari í að takast á við kröfur umhverfisins ýmist á vinnumarkaði eða í námi. Þegar ungmennin eru tilbúin, eru þau studd í vinnu eða skóla. Í Fjölsmiðjunni er rekið mötuneyti, bílaþvottastöð, verslun með notuð húsgögn o.fl. og móttaka á endurvinnslu á tölvum og öðrum raftækjum.
Fjölsmiðjan á Akureyri var stofnuð 9. júlí 2007 og hófst starfsemi við endurbætur á húsnæði við Óseyri 1a í september sama ár. 8. mars 2008 var svo húsnæðið formlega opnað eftir endurbætur. Vorið 2014 flutti Fjölsmiðjan í stærra og huggulegra húsnæði við Furuvelli 13. Stofnaðilar Fjölsmiðjunnar eru Rauði krossinn, Akureyrarbær, Vinnumálastofnun, Eining-Iðja og FVSA.