Starfsgreinasamband Íslands og Landssamband smábátaeigenda hafa undirritað nýjan kjarasamning vegna starfsmanna sem vinna við uppstokkun eða beitningu í landi. Samningurinn gildir jafnframt fyrir starfsmenn sem starfa við netavinnu. Viðræður hafa staðið yfir frá því í sumar og eftir nokkuð strangar viðræður undanfarnar vikur náðu samningsaðilar loks saman í gær. Á fundi framkvæmdastjórnar SGS sem fór fram fyrr í dag var samningurinn tekinn til afgreiðslu þar sem hann var samþykktur samhljóða.
Aðalatriði samningsins er hækkun kauptryggingar í rúmlega 300.000 kr. á samningstímanum, en samningurinn gildir frá 1. maí 2015 – 31. desember 2018. Kauptrygging og aðrir launaliðir taka hækkunum sem hér segir: 9,5% frá 1. maí 2015, 8,0% 1.maí 2016, 4,5% 1. maí 2017 og 3,1% 1. maí 2018. Desember- og orlofsuppbætur hækka í takt við það sem áður hafði verið samið um í aðalkjarasamningi SGS og SA, en í lok samningstímans verður desemberuppbót kr. 89.000 og orlofsuppbót kr. 48.000. miðað við fullt starf.
Hægt er lesa samninginn í heild sinni hér.