Á aðalfundi Einingar-Iðju sem fram fór í gær, 21. mars, varð ein breyting á stjórn félagsins. Hrefna Björg W. Björnsdóttir tók við sem ritari félagsins af Margréti H. Marvinsdóttur sem staðið hefur vaktina sem ritari félagsins undanfarin ár.
Eftir að kjöri stjórnar var lýst liðar kvaddi Margrét H. Marvinsdóttir sér hljóðs til að þakka fyrir árin 30 sem hún hefur starfað fyrir félagið. Hún sagði að starfið allan þennan tíma hefði bæði verið gefandi og gott. Margrét byrjaði að sinna verkalýðsmálum hjá Iðju félagi verksmiðjufólks og var ritari í stjórn Iðju. Hún var lengi trúnaðarmaður hjá Norðurmjólk og hélt því áfram í góðan tíma hjá MS Akureyri. Hún var lengi í stjórn Matvæla- og þjónustudeildarinnar, síðast sem formaður deildarinnar en hún lét af því starfi í febrúar 2017. Einnig hefur hún verið í Trúnaðarráði og samninganefndum félagsins í áraraðir og í mörgum öðrum ráðum og nefndum innan félagsins.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, sagði m.a. þegar hann flutti skýrslu stjórnar á aðalfundinum að þar sem ekki bárust tillögur eða listar annar en frá trúnaðarráði og teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. „Ég mun verða áfram formaður næstu tvö árin. Margrét H. Marvinsdóttir mun láta af störfum sem ritari félagsins og í hennar stað kemur Hrefna Björg W. Björnsdóttir. Tveir aðrir stjórnarmenn hafa hætt störfum, það eru Stefán Aðalsteinsson sem var varaformaður matvæla- og þjónustudeildar en hann skipti um starf og færði sig yfir í annað félag. Í hans stað kom Sólveig Auður Þorsteinsdóttir. Elísabet Skarphéðinsdóttir varaformaður opinberudeildarinnar hætti á vinnumarkaði og í hennar stað kom Guðbjörg Helga Andrésdóttir.
Því fólki sem er að hætta í stjórn; Margréti H. Marvinsdóttur, Stefáni Aðalsteinssyni og Elísabetu Skarphéðinsdóttur þakka ég fyrir góð og óeigingjörn störf fyrir félagið, ég þakka líka öllum þeim sem eru að hætta í trúnaðarráði og hinum ýmsu nefndum hjá félaginu fyrir frábær störf. Einnig býð ég nýtt fólk velkomið til starfa. Það er ekki erfitt að koma og taka þátt í okkar félagsstarfi það er nefnilega þannig að menn sem hafa áhuga eru gripnir til starfa sem trúnaðarmenn eða settir í ráð og nefndir. Það hefur alltaf gengið vel að fá fólkið okkar til að vinna fyrir félagið.“