Starfsgreinasambandið undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda vegna starfsfólks sem vinnur við uppstokkun eða beitningu í landi annarra en þeirra sem eru hlutaráðnir. Samningurinn gildir jafnframt fyrir starfsmenn sem starfa við netavinnu. Samið var um sams konar hækkanir og samið var um í almenna kjarasamningnum á milli ASÍ og SA, þ.e. til viðbótar við þá samninga sem þegar höfðu verið gerðir var samið um auka kauphækkanir og hærra framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Kauphækkanir verða afturvirkar frá 1. janúar 2016 og hækkar kauptryggingin þá um 8,7% í stað 8% eins og samið hafði verið um áður. Unnið er að útgáfu nýrra kauptaxta og nýs heildarsamnings sem birtur verður eins fljótt og auðið er. Samningurinn verður lagður fyrir stjórnir SGS og LS fyrir lok mánaðarins.
Á myndinni má sjá Halldór Ármannsson formann Landssamband smábátaeigenda og Magnús S. Magnússon formann samninganefndar SGS gagnvart LS handsala nýjan kjarasamning.
Nýjan kjarasamning má nálgast hér: Kjarasamningur SGS og LS 2016 – undirritað.