Á aðalfundi félagsins sem fram fór í síðustu viku tilkynnti Björn formaður að stjórn félagsins hefði ákveðið að veita fjórum félögum gullmerki. Jafnframt að ákveðið hefði verið að veita Sigrúnu Lárusdóttur, fyrrum skrifstofustjóra félagsins, heiðursmerki Einingar-Iðju. Þær sem hlutu gullmerki eru Sigríður K. Bjarkadóttir, Sunna Árnadóttir, Sigríður Þ. Jósepsdóttir og Margrét Jónsdóttir. Margrét gat ekki verið viðstödd og fær hún merkið afhent við fyrsta tækifæri.
Heiðursfélagi, Sigrún Lárusdóttir
Hún hóf störf hjá félaginu 4. júní 1974 og hefur unnið hjá félaginu síðan fyrir utan tæp þrjú ár sem hún sinnti barneignum en hún lætur af störfum hjá okkur þann 30. apríl nk. Starfsaldur upp á 46 ár er þó nokkuð og á þessum árum hefur margt breyst. Sigrún hefur verið aðalgjaldkeri félagsins og verið skrifstofustjóri. Ekki hefur alltaf verið hægt að skila sínum vinnudegi á milli 8 og 16. Það hefur oft verið langur vinnudagur og ekki síst hefur oft þurft að takast á við mörg vandamál ekki síst sem formaður stjórnar Sjúkrasjóðs. Hún hefur leiðbeint samstarfsfólki sínu eftir bestu getu og nýtt við það sína miklu yfirvegun. En hún hefur alltaf haft sínar skoðanir á hreinu. Það er mikill missir af Sigrúnu fyrir okkur sem hafa unnið með henni og félagsmenn í heild.
Gullmerki, Sigríður K. Bjarkadóttir
Hún hefur verið formaður Opinberudeildarinnar frá upphafi deildanna og lét af því starfi nú í vor. Hún hefur setið sem slíkur í aðalstjórn Einingar-Iðju. Setið í samninganefnd og tekið virkan þátt í samningagerð við ríki og sveitarfélög það eru ófáar stundirnar sem við Sigga höfum setið í Karphúsinu og alltaf hefur það verið hennar leiðarljós hvernig getum gert sem best fyrir okkar fólk og hún hefur unnið marga sigra á þeim samningavelli oftast eina sem var að vinna á gólfinu af þeim sem voru í samninganefnd SGS. Hún hefur verið sterkur stjórnarmaður haft skoðanir og verið ófeimin að koma þeim á framfæri. Hún hefur verið trúnaðarmaður á sínum vinnustað til langs tíma.
Gullmerki, Sunna Árnadóttir
Hefur verið í stjórn Einingar-Iðju sem formaður Matvæladeildar félagsins. Hún hefur um langt skeið verið trúnaðarmaður á sínum vinnustöðum, og setið í samninganefnd félagsins ásamt því að vera í trúnaðarráði. Hún hefur verið mjög virkur félagsmaður og tekið þátt í ýmiskonar fundum sem fulltrúi okkar og setið stjórnum og ráðum innan félagsins.
Gullmerki, Sigríður Þ. Jósepsdóttir
Er varasvæðisfulltrúi svæðisráðs Hríseyjar- og Dalvíkurbyggðar. Hún hefur verið trúnaðarmaður á sínum vinnustað um nokkurt skeið. Hún á sæti í samninganefnd og trúnaðarráðinu ásamt því að vera í nefndum og ráðum innan okkar raða. Hún er í stjórn Matvæla- og Þjónustudeildar og verið það í mörg ár.
Gullmerki, Margrét Jónsdóttir
Hún hefur verið svæðisfulltrúi Fjallabyggðar til fjölda ára verið þannig í stjórn Einingar-Iðju. Hún var trúnaðarmaður á sínum vinnustað og hefur tekið þátt í starfi samninganefndar og einnig setið í Trúnaðarráði félagsins einnig setið í hinum ýmsu nefndum fyrir félagið. Hún er núna starfsmaður félagsins í Fjallabyggð.