Nýr framkvæmdastjóri ASÍ í heimsókn

Guðrún, Eyrún og Kristín
Guðrún, Eyrún og Kristín

Í gær komu þrír góðir gestir frá ASÍ í heimsókn á skrifstofu félagsins á Akureyri. Þarna voru mættar nýr framkvæmdastjóri ASÍ, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Kristín Ýr Gunnarsdóttir, verkefnastjóri kynningar og upplýsingarmála, sem einnig er nýlega byrjuð hjá ASÍ og Eyrún Björk Valsdóttir deildarstjóri fræðsludeildar og skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu. Þær eru þessa dagana að heimsækja skrifstofur félaga innan ASÍ til að hitta starfsmenn og forsvarsmenn þeirra.

Guðrún, sem hóf störf á skrifstofu ASÍ í maí síðastliðnum, sagði m.a. að sá tími hefði bæði verið lærdómsríkur og skemmtilegur. Einnig að henni hefði fundist, í ljósi mikilla samskipta milli stéttarfélaga og ASÍ, þörf á að fara í þessar heimsóknir til að styrkja tengslin enn frekar á milli aðildarfélaganna og þeirra á skrifstofu ASÍ.

Þetta var mjög gott og gagnlegt spjall þar sem m.a. var rætt um hvaða hlutverki skrifstofa ASÍ gegnir og eins hvaða hlutverki hún ætti að gegna. Þá var rætt um nýjan fjarfundarbúnað ASÍ, vinnustaðaeftirlit, ASÍ-UNG, kynningar og fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í grunn- og framhaldsskólum, fræðslumál eins og trúnaðarmannanámskeiðin og margt fleira.