Nýju íbúðirnar afhentar í gær

Björn kominn með lyklana
Björn kominn með lyklana

Eins og áður hefur komið fram keypti félagið fimm nýjar íbúðir í Álalind 2 í Kópavogi. Í gær fékk Björn formaður félagsins afhenta lykla af nýju íbúðunum og eru þær því komnar í hendur félagsins. Nú fer af stað vinna við að standsetja þær en m.a. á eftir að setja á þær gólfefni. Fyrirhugað er að taka þær í notkun í byrjun febrúar nk. 

Þetta er stærsta einstaka fjárfesting sem félagið hefur farið í, en um er að ræða fjórar fjögurra herbergja íbúðir og eina þriggja herbergja íbúð. Fjórar eldri íbúðir voru seldar og er nú þegar búið að afhenda þrjár þeirra og því hafa færri íbúðir verið í boði en vanalega í Reykjavík.

Íbúðirnar eru í 5 hæða fjölbýlishúsi sem stendur við Álalind 2 í austurhluta nýs íbúðahverfis, Glaðheima, í Kópavogi. 25 íbúðir eru í fjölbýlishúsinu og er bílageymsla undir því. Íbúðahverfið liggur austan megin við Reykjanesbraut og felst sérstaða þessa íbúðarsvæðis m.a. í því hversu miðlægt það er í Kópavogi og í vaxandi svæðiskjarna höfuðborgarsvæðisins, Smáranum. Frábær staðsetning, stutt í stofnæðar höfuðborgarsvæðisins og steinsnar í Smáralindina! Stutt í alla þjónustu, afþreyingu, atvinnulíf, gönguleiðir og útivistarsvæði.