Á heimasíðu ASÍ kemur fram að frá því að ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í nóvember 2013 um að haga stefnu sinni og ákvörðunum út frá markmiðum um stöðugleika og áréttaði mikilvægi samráðs um ýmis mál, einkum peningamál, hefur fátt eitt gerst annað en að stefna stjórnvalda er talin ýta undir óvissu um verðlag og gengi. Ofan í kaupið ætlar ríkisstjórnin að taka af borðinu einu trúverðugu leiðina í peningamálum með því að slíta aðildarviðræðum við ESB.
Ríkisstjórn og sveitarfélög hafa að undanförnu samþykkt veruleg frávik frá þeirri meginlínu sem lá til grundvallar kjarasamningunum sem gerðir voru í desember 2013 og febrúar 2014. Aðildarsamtök ASÍ geta ekki við það unað að launafólki sé mismunað með þessum hætti. Það getur ekki verið þannig að almennt launafólk beri eitt ábyrgð á stöðugleika og lágri verðbólgu á meðan aðrir sæki sér meiri kaupmáttarauka með meiri launahækkunum. Það verða allir að axla ábyrgð.
Eins og þróun verðlags undanfarna mánuði sýnir var raunverulegur möguleiki á því að koma hér á nýju og breyttu vinnulagi sem lagt gæti grunn að varanlegum stöðugleika. Félagsmenn ASÍ vildu gera slíka tilraun. Því miður vantaði framtíðarsýn stjórnvalda og samstöðu á vinnumarkaði svo leiðin væri fær. Þess vegna hljóta aðildarsamtök ASÍ að fara inn í viðræður um næsta kjarasamning á þeim grundvelli að krefjast réttmætra leiðréttinga á kjörum sinna félagsmanna til jafns við aðra.