Þann 2. febrúar 1990 undirrituðu launafólk og atvinnurekendur heildarkjarasamning til 18 mánaða. Samningnum var ætlað að ná verðbólgu hratt niður – en hún hafði verið 21% árið 1989! – og tryggja atvinnuöryggi. Æ síðan hefur þessi samningur gengið undir nafninu þjóðarsátt um kjaramál.
Gerbreytt staða
Staðan á vinnumarkaði er gerbreytt á 25 ára afmæli þjóðarsáttarsamningsins. Hér er minni verðbólga en sést hefur um árabil og jafnvel verðhjöðnun. Hins vegar hefur launamunur í landinu aukist jafnt og þétt. Margir hópar á vinnumarkaði krefjast því verulegrar launaleiðréttingar og launahækkunar og horfa m.a. til nýlegra samninga við kennara og lækna.
Talsmenn atvinnurekenda segja að ekkert svigrúm sé til slíkra breytinga; allt fari á hvínandi kúpuna og verðbólgan æði aftur af stað verði launahækkanir ekki með hóflegasta móti. Þessi sultarsöngur atvinnurekenda er gamalkunnur, enda kyrjaður hástöfum í hvert einasta sinn sem launafólk sest að samningaborðinu.
Sanngjörn og skýr krafa
Starfsgreinasamband Íslands hefur sett fram sanngjarna og skýra kröfu í aðdraganda kjaraviðræðna. Sambandið leggur megináherslu á að lægstu laun hækki verulega frá því sem nú er, þannig að þau verði ekki lengur undir framfærslu- og jafnvel fátæktarmörkum, eins og raunin er nú. Jafnframt á að horfa á krónutöluhækkun launa almennt en ekki prósentuhækkun, eins og því miður hefur verið gert allt of lengi. Það er engin sanngirni í því að sá sem er með 800 þúsund krónur í laun á mánuði hækki um 240 þúsund krónur í launum við 30% launahækkun en sá sem er með 200 þúsund krónur í mánaðarlaun hækki um 60 þúsund krónur. Það liggur í augum uppi.
Ný þjóðarsátt í augsýn?
Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að hann styðji hugmyndina um krónutöluhækkun launa. Ég fagna því. Ég vona jafnframt að samningsaðilar geti sæst á umtalsverða hækkun lægstu launa og raunsæja krónutöluhækkun hópa sem eru ofar í launastiganum.
Hugmynd um nýja þjóðarsátt hefur verið reifuð víða síðustu ár en til þess að svo megi verða þarf margt að koma til. Mikilvægt skref í þá átt er sátt um hækkun taxtalauna í samræmi við kröfur Starfsgreinasambandsins. Lykilatriðin eru tekjujöfnun í gegnum kjarasamninga og skattkerfið og efling velferðarkerfisins. Einungis þannig verður ný þjóðarsátt 25 árum síðar raunhæf.
Björn Snæbjörnsson.
Höfundur er formaður Starfsgreinasambands Íslands og Einingar-Iðju.