Á heimasíðu SGS er fjallað um skýrslu sem nýverið kom út á vegum Eurofound þar sem
fjallað er um svarta atvinnustarfsemi á Íslandi út frá ýmsum hliðum. Markmið skýrslunnar, sem ber yfirskriftina „Tackling undeclared work
in Iceland“, er m.a. að veita yfirlit yfir umfang og eðli svartar atvinnustarsemi á Íslandi sem og varpa ljósi á aðgerðir yfirvalda til að
uppræta slíkt. Í skýrslunni er svört atvinnustarfsemi á Íslandi talin nema 15% af vergri þjóðarframleiðslu og því er
ljóst að um gríðarlega fjármuni er um að ræða – fjármuni sem rata ofan í hið svarta hagkerfi í stað þess að
samfélagið njóti góðs af.
Samkvæmt skýrslunni er ástandið þó síður en svo verst á Íslandi þegar umfangið er borið saman við önnur
Evrópulönd. Af þeim 28 Evrópulöndum sem borin eru saman er Ísland í 6. sæti varðandi hlutfall svartrar atvinnustarfsemi af vergri
þjóðarframleiðslu. Ástandið er talið skást í Austurríki og Lúxemborg (tæp 10%), en verst er ástandið í
Rúmeníu og Búlgaríu – yfir 30%. Hér má nálgast skýrsluna á pdf-formi.
Undanfarin misseri hefur svört atvinnustarfsemi hér á landi verið mikið í umræðunni og hafa margir lýst yfir áhyggjum af stöðu
mála, sérstaklega innan hinnar sívaxandi ferðaþjónustu. Nýlega sendi SGS frá sér ályktun þar sem lýst er áhyggjum
af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu og greint frá því að undanfarin ár hefur orðið mjög vart við
kjarasamningsbrot í greininni og undanskot frá sköttum og skyldum. SGS skorar því á atvinnurekendur, starfsfólk og stjórnvöld að
gæta þess að farið sé eftir leikreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér og láti vita ef misbrestur er á.
Þess má geta að í sumar munu Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Ríkisskattstjóri taka höndum saman á
nýjan leik og ráðast í sérstakt átak, m.a. gegn svartri atvinnustarfsemi. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna
aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera
nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Yfirskrift átaksins er „Leggur þú þitt af mörkum?“