Í nýrri skýrslu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um íslenskan vinnumarkað er að finna ítarlega greiningu á áhrifum COVID-veirufaraldursins á atvinnulíf og afkomu launafólks.
Þrátt fyrir að efnahagslegur samdráttur reyndist minni en óttast var í fyrstu skilur Covid kreppan eftir sig djúp sár á vinnumarkaði. Hagstofan áætlar 6,6% samdrátt á síðasta ári en ekki er langt síðan spáaðilar töldu líklegt að samdrátturinn yrði nær 8%. Þar skipti sköpum sterk fjárhagsstaða heimila í aðdraganda kreppunnar en heimilin gátu viðhaldið útgjöldum m.a. í gegnum aukna skuldsetningu, úttekt séreignarsparnaðar og úrræði á borð við frestun lánagreiðslna.