Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett nýja reglugerð sem kveður á um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Öllum vinnustöðum verður skylt að gera áætlun um aðgerðir til að sporna við þessum þáttum og um viðbrögð ef á reynir.
Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er öllum vinnustöðum skylt að gera áhættumat með því að greina hugsanlega áhættuþætti sem ógna öryggi. Í nýju reglugerðinni er með skýrum hætti kveðið á um að við gerð áhættumatsins skuli meðal annars greina áhættuþætti eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað, líkt og tiltekið er í reglugerðinni, þar sem tekið skuli tillit til andlegra og félagslegra þátta, svo sem aldurs starfsmanna, kynjahlutfalls, ólíks menningarlegs bakgrunns starfsfólks, skipulags vinnutíma, vinnuálags og fleira. Áhættumatinu er þannig ætlað að taka mið af aðstæðum á hverjum stað.
Í framhaldinu samþykkti framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins að láta útbúa ramma fyrir slíka áætlun sem gæti nýst aðildarfélögunum til að gera sínar eigin áætlanir og aðstoða vinnustaði við að gera slíkt í framhaldinu.