Á vef ASí má finna eftirfarandi frétt þar sem fjallað er um ný lög um neytendalán sem auka þörfina á leiguhúsnæði.
Þann 1. nóvember síðastliðinn tóku gildi ný lög um neytendalán nr. 33/2013. Lögin fela í sér umtalsvert aukna neytendavernd en gera jafnframt ríkari kröfur til lánshæfis og greiðslugetu lántaka. Breytingin felur í sér að það fjölgar í þeim hópi sem ekki fær lánafyrirgreiðslu til húsnæðiskaupa og eykur þar með þörfina enn frekar fyrir öruggt leiguhúsnæði.
Helstu breytingar sem lögin fela í sér fyrir neytendur eru að gerð er mun ríkari krafa en hingað til um upplýsingaskyldu lánveitanda til neytenda áður en lán er veitt. Sett er 1% hámark á uppgreiðslugjald sem lánveitanda er heimilt að innheimta og hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ein veigamesta breytingin með nýju lögunum er að lánveitanda er nú skylt að framkvæma lánshæfismatvegna allra neytendalána og greiðslumat við lántöku umfram 2 milljónir króna hjá einstaklingi og 4 milljónir hjá hjónum. Samkvæmt reglugerð nr. 920/2013 sem innanríkisráðherra hefur sett með stoð í lögunum skal lánshæfismat gert til að sannreyna getu lántaka til að efna lánasamninga og skal það byggt á viðskiptasögu og/eða upplýsingum úr gagnagrunni um fjárhagsmálefni og lánstraust.Greiðslumatið felur hins vegar í sér útreikning á greiðslugetu lántaka. Í reglugerðinni eru sett nákvæm fyrirmæli um framkvæmd greiðslumatsins og þau viðmið sem nota ber við útreikning á greiðslugetu. Þessi viðmið eru nokkuð hærri en þau lágmarksviðmið sem höfð hafa verið til hliðsjónar við gerð greiðslumats fram að þessu. Þótt reglugerðin heimili að miðað sé við raun-neyslutölur lánataka getur sú fjárhæð aldrei orðið lægri en 75% af grunnneysluviðmiði. Sem dæmi má nefna að grunnviðmið fyrir hjón með tvö börn á höfuðborgarsvæðinu án húsnæðiskostnaðar er nú um 322.000 krónur á mánuði.
Ætla má að auknar kröfur um lánshæfi og greiðslugetu muni verða til þess að fleiri en áður fá ekki lánafyrirgreiðslu, m.a. til húsnæðiskaupa og því muni fjölga enn frekar í þeim hópi sem þarf á öruggu langtíma leiguhúsnæði að halda.
Líkt og Alþýðusambandið hefur lagt áherslu á undanfarin misseri, býr stór hluti þjóðarinnar við óásættanlegt óöryggi í húsnæðismálum og á þess ekki kost að eignast eigið húsnæði. Því er brýnt að auka fjölbreytileika í húsnæðismálum m.a. með uppbyggingu á almennum leigumarkaði og félagslegu húsnæðiskerfi. Sömuleiðis er grundvallaratriði að komið verði á einu kerfi húsnæðisbóta sem jafni stöðu kaupenda og leigjenda en í dag er opinber stuðningur við leigjendur mun minni en við kaupendur. Mikilvægt er að stjórnvöld setji nú allt kapp á að skapa þær forsendur sem til þarf svo landsmenn allir eigi kost á öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum.