Á aðalfundinum sem fram fór sl. miðvikudag komu tveir nýir stjórnarmenn inn í aðalstjórn félagsins. Þegar auglýst var eftir lista eða tillögum um fólk í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir starfsárið 2021-2022 barst einungis listi frá trúnaðarráði og því voru þeir félagsmenn sem trúnaðarráð gerðu tillögu um sjálfkjörnir.
Björn Snæbjörnsson mun því áfram verða formaður félagsins. Nýr ritari félagsins er Gunnar Magnússon og ný í stjórn sem meðstjórnandi er Sunna Líf Jóhannsdóttir. Sunna Líf er fædd árið 1997 og mun því verða næst yngsti einstaklingurinn frá upphafi til að taka sæti í stjórn félagsins. 45 af trúnaðarmönnum félagsins er 35 ára eða yngri, félagið telur það frábært að fá inn svona ungan stjórnarmann og að í félaginu sé hópur af mjög áhugasömu ungu fólki sem er á fullu í félagsstarfinu.
Auk þessara þriggja fyrrgreindra stjórnarmanna situr í stjórninni Anna Júlíusdóttir varaformaður. Þrír formenn deilda og þrír varaformenn sitja einnig í stjórninni; Ingvar Kristjánsson og Svavar Magnússon frá Iðnaðar- og tækjadeild, Guðbjörg Helga Andrésdóttir og Ingibjörg María Ingvadóttir frá Opinberu deild og Tryggvi Jóhannsson og Sólveig Auður Þorsteinsdóttir frá Matvæla- og þjónustudeild. Einnig eru í stjórninni svæðisfulltrúarnir Elín Kjartansdóttir, Guðrún J. Þorbjarnardóttir og Róbert Þorsteinsson.
Þær Elín og Ingibjörg komu nýjar inn í stjórn félagsins fyrr á árinu.
Mikil ánægja með störf stjórnar
Mikil ánægja hefur ríkt með störf stjórnar félagsins í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Á hverju ári sér Gallup um framkvæmd slíkrar könnunar fyrir félagið þar sem 1.500 félagsmenn eru spurðir ýmissa spurninga, m.a. um viðhorf til stjórnar og þjónustu félagsins. Rúmlega 98% svarenda sögðust vera sáttir eða hvorki né er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju, þar af merktu rétt tæplega 80% við að þau væru sátt við félagið. 97,7% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru aðeins betri niðurstöður en á síðustu árum.