Ný heimasíða í vinnslu

Björn formaður og Róbert Freyr, sölustjóri Stefnu
Björn formaður og Róbert Freyr, sölustjóri Stefnu

Nýlega var samið við Stefnu um að taka vefsvæði Einingar-Iðju í allsherjar yfirhalningu þar sem aðgengi og viðmót verður tekið til gagngerra breytinga og er viðmótshönnuður hjá Stefnu nú að fara yfir núverandi vef félagsins.

Áherslur og ásýnd nýja vefsins verða gerð nútímaleg og snjalltækjavæn. Vefurinn verður hugsaður út frá þörfum notandans og er tilgangurinn fyrst og fremst að útbúa vef sem þjónar félagsmönnum Einingar-Iðju sem best. Þar á meðal verður tekið til í leiðakerfinu þannig að vefurinn verði auðskiljanlegri og notast við hugtök og yfirflokka sem leiða notandann áfram á enn þægilegri hátt en núna.

Notast verður við stóra valmynd sem gefur góða yfirsýn yfir innihald og verður aukaefni og tengiliðir birtir þar sem við á til að auðvelda næstu skref. Fyrir utan auðveldari flokkun og þægilegri vef að vafra þá verður auðveldara að hafa samband, augljóst hver tengiliður er varðandi ákveðin atriðið og leitarvélin verður endurbætt.

Flýtum okkur hægt

Núverandi vefur félagsins var líka unninn af Stefnu, en hann var settur í loftið 9. nóvember 2012. Ásgrímur Örn Hallgrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að mjög gott samstarf hafi verið við Stefnu þennan tíma og því var ákveðið að leita aftur til þeirra núna. „Það er líka mjög þægilegt að vinna í vefumsjónarkerfinu þeirra, Moya. Nú var kominn tími til að gera ýmsar lagfæringar á núverandi heimasíðu, en þegar við skoðuðum málið betur var ljóst að betra var að setja upp nýjan vef í stað þess að lappa aðeins upp á þann sem nú er í notkun. Stjórn félagsins tók málið fyrir og ákvað að fá Stefnu til að vinna verkið. Viðmótshönnuður hjá þeim er búinn að rýna vefinn okkar og erum við búin að sjá fyrstu drög af hugmyndum fyrir nýja vefinn auk þess sem veftré vefsins var einfaldað,“ sagði Ásgrímur og bætti við að nýi vefurinn færi í loftið síðar á árinu. „Þó ég vilji setja vefinn sem fyrst í loftið þá ætlum við ekki að flýta okkur um of. Við þurfum að fara yfir mikið efni sem er á núverandi síðu, laga það sem þarf að laga og færa eitthvað af því yfir á nýja vefinn, en notendur verða varir við það þegar hann fer í loftið, því tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst að útbúa vef sem þjónar félagsmönnum okkar sem best.“