Hagdeild ASÍ spáir umtalsverðum hagvexti á næstu árum sem drifinn er áfram af kröftugum vexti þjóðarútgjalda. Á þessu ári er áætlað að verg landsframleiðsla aukist um 3,1% og mun hagvöxtur verða þar um kring út spátímann, 3,3% á næsta ári og 3,5% árið 2016.
Horfur í íslensku efnahagslífi eru þannig bjartari en um langt árabil en fjárhagsleg staða heimilanna hefur batnað og lagt grunn að umtalsverðum vexti einkaneyslu á þessu ári. Skuldir heimilanna fara lækkandi, kaupmáttur launa vaxandi, væntingar hafa aukist og dregið hefur úr efnahagslegri óvissu. Þetta, samhliða skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda og skattkerfisbreytingum, mun ýta undir töluverðan vöxt einkaneyslunnar á tímabilinu, eða 3,7% á ári að jafnaði á spátímabilinu.
Viðsnúningur verður í fjárfestingu á þessu ári eftir samdrátt síðasta árs en hann mátti m.a. rekja til minnkandi umsvifa í stóriðju. Útlit er fyrir 15,5% vöxt fjárfestinga á þessu ári en vöxtur er innan allra undirliða, þ.e. í fjárfestingu atvinnuvega, íbúðabyggingu og fjárfestingu hins opinbera. Gangi spá hagdeildar eftir verður fjárfesting nærri sögulegu meðaltali í lok spátímans og verður hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu þá tæplega 21%.
Hætta er á að tímabil verðstöðugleika taki enda á næsta ári þegar þensluhvetjandi aðgerðir stjórnvalda og vöxtur innlendrar eftirspurnar ýta undir hækkun verðlags. Verðbólga verður 2,3% á þessu ári en fer eftir það vaxandi og verður að jafnaði 3,1% á ári út spátímann.