Verg landsframleiðsla eykst hressilega yfir spátímann og gangi spá hagdeildar eftir verðurhagvöxtur 4,7% á þessu ári og 5,4% árið 2017. Hagvöxtur verður þó öllu minni árið 2018, eða 2,5%.
Í heildina litið hefur þróunin í efnahagslífinu verið í takt við væntingar okkar. Vöxtur bæði í ferðaþjónustu og innlendri eftirspurn hefur þó verið bæði meiri og hraðari en gert var ráð fyrir í síðustu spá. Spáð er minni verðbólgu en áður og skýrist sú breyting að mestu af breyttri forsendu um gengisþróun en nú gerum við ráð fyrir hóflegri styrkingu krónunnar allan spátímann.
Vaxandi spenna gerir nú vart við sig í hagkerfinu og útlit er fyrir frekari vöxt ferðaþjónustunnar á sama tíma og aukin innlend eftirspurn drífur kröftugan vöxt þjóðarútgjalda á fyrri hluta spátímans. Hækkandi húsnæðisverð og sterkara gengi krónunnar minna um leið á þær aðstæður sem voru til staðar á árunum fyrir hrun. Í þessu felast miklar áskoranir, sérstaklega á vinnumarkaði þar sem víða má sjá merki um ofhitnun.
Ólíkt aðstæðum fyrir hrun er skuldastaða heimilanna góð og launaþróun hefur skapað forsendur fyrir aukinni einkaneyslu. Hagdeild spáir 7,6% vexti einkaneyslunnar á þessu ári og að jafnaði 4,6% vexti á árunum 2017-2018.
Fjármunamyndun verður 22% af vergri landsframleiðslu yfir spátímann gangi spá hagdeildar eftir þar sem megindrifkrafturinn eru auknar fjárfestingar atvinnuveganna. Fyrirtæki hafa brugðist við vaxandi eftirspurn með auknum fjárfestingum en á sama tíma er áhyggjuefni hversu litlu er varið í fjárfestingar hins opinbera.
Útlit er fyrir 15,9% vöxt íbúðafjárfestinga á þessu ári og að meðaltali 15,8% aukningu á árunum 2017-2018. Þótt þróunin sé í rétta átt er mikil uppsöfnuð eftirspurn til staðar á húsnæðismarkaði og útlit fyrir umtalsverða hækkun húsnæðisverðs á næstu árum.
Vöxtur útflutnings verður þó nokkur á næstu árum og er útlit fyrir að áframhaldandi aukning útfluttrar þjónustu þ.e. fjölgun ferðamanna drífi 6,5% vöxt útflutnings á þessu ári og 6,2% á næsta ári. Á hinn bóginn eykst innflutningur umtalsvert yfir spátímann í takt við vöxt þjóðarútgjalda þar sem hæst ber 14,2% vöxtur á þessu ári.
Víða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda tímabundinna erlendra starfsmanna. Hætta er á að aukin spenna geti í vaxandi mæli ýtt undir launaskrið.
Hagfelld gengisþróun dregur úr verðbólguþrýstingi og er líklegt að verðbólga haldist undir og kringum verðbólgumarkmið Seðlabankans mest allt spátímabilið.Verðbólga tekur hins vegar að aukast árið 2018 þegar hægir á styrkingu krónunnar.