Ný hagspá ASÍ - hagvöxtur en óvissa

Út er komin ný hagspá ASI og má skv. henni vænta að hagvöxtur verði 3,6% á yfirstandandi ári og á því næsta, en verði 2,5% árið 2017. Gangi spáin eftir mun hagvöxtur á þessu ári verða með því mesta sem mælst hefur frá hruni. Vöxtur landsframleiðslunnar skýrist af umtalsverðum vexti innlendrar eftirspurnar, þar sem vænta má bæði vaxandi neyslu heimilanna en einnig aukinna fjárfestinga. Þannig má áætla að þjóðarútgjöld aukist að jafnaði um 4,7% á ári yfir spátímann.

Fjárhagur heimilanna hefur vænkast, sem kemur fram í vaxandi neyslu, en hagdeild áætlar að einkaneysla aukist um 3,7% á þessu ári, um 3,5% á næsta ári og 3,2% árið 2017. Hraður vöxtur einkaneyslunnar skýrist af hækkun launa, jákvæðri þróun á vinnumarkaði auk skulda- og skattalækkunaraðgerða stjórnvalda.

Útlit er fyrir þó nokkurn vöxt fjárfestinga á spátímanum og gangi spáin eftir má áætla að fjármunamyndun nemi um 20,7% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2017 og verði þannig nærri sögulegu meðaltali. Vöxtur fjárfestinga skýrist að mestu af fjárfestingu atvinnuveganna, bæði almennri fjárfestingu auk stórra verkefna í stóriðju. Þar má t.d. nefna kísilmálmframleiðslu. Þannig er búist við að fjárfestingar aukist árlega um 16% á árunum 2015 og 2016 en vöxturinn verði öllu hægari árið 2017 eða um 7,3%. Umtalsverð aukning í byggingu íbúða styður við vöxt fjármunamyndunar en þrátt fyrir þann vöxt er fjárfesting í íbúðum enn sögulega lítil og aukning framboðs ekki nægjanleg til að vega upp á móti vaxandi eftirspurn. Fyrirséð er því að húsnæðisverð komi til með að hækka á næstu árum.

Töluverð óvissa er til staðar um framvindu efnahagsmála og þá sérstaklega varðandi þróun verðbólgu en verðbólguhorfur hafa versnað undanfarin misseri. Sú þróun er ekki að öllu óvænt í ljósi þess hvernig innlend eftirspurn og laun hjá hinu opinbera hafa þróast og því hætta á að gengisstöðugleiki og mikil lækkun á olíuverði hafi einungis veitt skammgóðan vermi. Forsætisráðherra hefur boðað að stór skref verði stigin í losun fjármagnshafta á komandi mánuðum, auk þess sem kjarasamningar stórra hópa eru lausir. Enn fremur ýtir þróun húsnæðisverðs undir hækkun verðlags og telur hagdeildin líklegt að verðbólga verði komin yfir markmið Seðlabankans á þessu ári og kunni að vera nokkuð há á spátímanum, 3,5% á næsta ári og 3,4% árið 2017.

Horfur í efnahagsmálum 2015-2017