Samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar ASÍ er að birta til í íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur er að glæðast, fjárfestingar að taka við sér, kaupmáttur að aukast og atvinnuleysi að minnka þó það verði áfram mikið. Hagur heimilanna er því að vænkast þó staða margra verði áfram erfið. Óstöðugleiki verður áfram til staðar með veiku gengi og mikilli verðbólgu.
Hagdeildin spáir því að landsframleiðsla aukist á næstu árum og að árlegur hagvöxtur verði á bilinu 2,5-2,8% fram til
ársins 2015. Hagvöxturinn verður drifinn áfram af fjárfestingum en vonir hafa glæðst um auknar fjárfestingar í hagkerfinu á
spátímanum. Framkvæmdir eru hafnar við Vaðlaheiðargöng og vaxandi líkur eru á að framkvæmdir við álver í Helguvík
hefjist að nýju á næsta ári auk byggingu fangelsis á Hólmsheiði og nýs Landspítala. Samkvæmt spánni dregur úr
atvinnuleysi en það verður um 3,8% í lok spátímans. Spáð er að verðbólgan verði 4,5% að meðaltali á næsta
ári en fari síðan lækkandi og verði komin í 2,6% árið 2015.
Efnahagsbatinn er brothættur og það eru blikur á lofti. Umheimurinn glímir við þrálátan efnahagsvanda sem ekki sér fyrir endann á.
Þróist efnahagsmál erlendis á verri veg en spáð hefur verið mun það bitna á okkur. Þá eru stór
fjárfestingaráform s.s. bygging álvers í Helguvík ekki í hendi þó að líkur á þeim hafi aukist og því
reiknað með þeim í hagspánni. Samkvæmt frávikadæmum sem birt eru með hagspánni þá mun draga verulega úr hagvexti ef ekki
verður ráðist í byggingu álversins og verði frekari tafir á byggingu nýs spítala hefur það einnig áhrif á spána.
Uppsafnaður hagvöxtur áranna 2013–2015 mun minnka um 2,7% og heildarverðmætasköpun okkar verða um 100 milljörðum minni fram til ársins 2015
gangi fjárfestingaráformin ekki eftir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá hagdeildar ASÍ, Horfur í efnahagsmálum 2012-2015.