Ný forysta ASÍ

Ný forysta ASÍ. F.v. Vilhjálmur, Drífa og Kristján
Ný forysta ASÍ. F.v. Vilhjálmur, Drífa og Kristján

43. þingi Alþýðusambands Íslands lauk sl. föstudag, en þingið stóð yfir í þrjá daga undir yfirskriftinni Sterkari saman!. Fyrir þingið hafði fráfarandi forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, lýst því yfir að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram á ný, en hann var búinn að gegna embættinu frá því í október 2008.  Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, og Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, voru tvö í framboði og fór svo að Drífa var kosin nýr forseti ASÍ. Drífa hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2012 og er fyrsta konan sem er kjörin í embætti forseta ASÍ í 102 ára sögu Alþýðusambands Íslands.

Tveir buðu sig fram til 1. varaforseta ASÍ. Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélag Suðurnesja, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness sem var kjörinn 1. varaforseti með um 60% atkvæða. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, var sjálfkjörinn í embætti 2. varforseta.

Þó nokkrar breytingar urðu á miðstjórn Alþýðusambandsins sem kjörin var til næstu tveggja ára. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og SGS, var kjörinn til að sitja áfram í miðstjórn, en atkvæði féllu þannig: 

  • Finnbogi Sveinbjörnsson 250 (90,9%)
  • Björn Snæbjörnsson 239 (86,9%)
  • Berglind Hafsteinsdóttir 238 (86,5%)
  • Valmundur Valmundsson 232 (84,4%)
  • Halldóra Sveinsdóttir 231 (84,0%)
  • Eiður Stefánsson 229 (83,3%)
  • Sólveig Anna Jónsdóttir 229 (83,3%)
  • Hilmar Harðarson 217 (78,9%)
  • Ragnar Þór Ingólfsson 210 (76,4%)
  • Harpa Sævarsdóttir 202 (73,5%)
  • Kristín María Björnsdóttir 194 (70,5%)
  • Helga Ingólfsdóttir 168 (61,1%)

Sex ályktanir og stefnur voru afgreiddar á þinginu. Ályktun um kvennafrí, stefna um tekjuskiptingu og jöfnuð, stefna um húsnæðismál, stefna um heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfið, stefna um jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs og stefna um tækniþróun og skipulag vinnunnar fóru í gegnum umræðu á þinginu og voru að því loknu afgreiddar. Sjá nánar hér.

Mynd með frétt er fengin af vef ASÍ.