Á vef ASÍ má finna frétt þar sem fjallað er um nýja bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar Áhættudreifing eða einangrun? sem Landssamtök lífeyrissjóða gáfu nýlega út. Bókina má nálgast ókeypis á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, en í henni er fjallað um áhrif og skaðsemi fjármagnshafta fyrir íslenskt efnahagslíf og starfsemi lífeyrissjóða. Meðal þess sem fram kemur í bókinni er að veita eigi lífeyrissjóðunum undanþágu frá fjármagnshöftum sem veitir þeim heimild til að fjárfesta fjórðungi af iðgjöldum hvers ár eða um 10 milljörðum árlega, í erlendum eignum.
Höfundar segja margt benda til þess að fjármagnshöft verði verði viðvarandi hérlendis næstu árin. Óumdeilt sé þó að erlendar fjárfestingar og alþjóðleg eignadreifing séu lykilskilyrðin fyrir því að sjóðsöfnunarkerfi geti skilað hlutverki sínu með fullnægjandi hætti og tryggt að öldrun þjóðarinnar valdi ekki verulegum ruðningsáhrifum í efnahagslífinu. Um 22% af eignarsafni lífeyrissjóðanna er nú í erlendum eignum en sé tekið tillit til haftanna og aukningar í lífeyriseignum á næstu árum ætti vægi erlendra eigna að vera mun hærra.
Í ljósi þessa setja þeir fram þrjár tillögur varðandi erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna á næstu árum.
Í fyrsta lagi fái lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta erlendis fyrir 10 milljarða á ári til að tryggja að hlutfall erlendra eigna þeirra lækki ekki frekar en orðið er.
Í öðru lagi verði unnið að því að auka hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna á næstu árum með því að ráðstafa þeim viðskiptaafgangi sem er umfram 5% af landsframleiðslu til að hækka hlutfall erlendra eigna.
Í þriðja lagi leggja höfundar til að litið verði á erlenda fjárfestingu lífeyrissparnaðar sem þjóðhagsvarúðartæki til að koma í veg fyrir að innflutningur erlends sparnaðar valdi þenslu innanlands og rýri samkeppnisstöðu atvinnuveganna eins og oft hefur verið raunin hér á landi. Í þessu miði verði farin „kínverska leiðin“ þannig að sóst verði eftir erlendri fjárfestingu á sama tíma og landið sé hreinn fjármagnsútflytjandi með varanlegan viðskiptaafgang.