Á heimasíðu SGS kemur fram að Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum (NU-HRCT) hafa mótað norræna atvinnustefnu í ferðaþjónustu. Í atvinnustefnunni er lögð áhersla á sjálfbærni og samkeppnisstöðu Norðurlandanna, hvernig þau geta unnið saman og kynnt sig sem vænlegari kost fyrir ferðamenn.
Ferðaþjónustan er víða á krossgötum þar sem hún eykst sífellt og fer frá því að vera árstíðarbundin yfir í að vera iðnaður með heilsársstörf eins og hver önnur atvinnugrein. Þetta krefst aukinnar menntunar starfsfólks og stífari ramma utan um iðnaðinn. Þá er nauðsynlegt að forðast að verða „láglaunatúristaland“, heldur hlúa vel að starfsfólki og vinnuumhverfi í greininni. Í stefnunni er fjallað um hvernig má auka verðmætasköpun og framleiðni, hvernig umgjörð greinarinnar þarf að vera, markaðssetningu auk rannsókna og nýsköpunar. Bara á Norðurlöndunum eru um 50.000 fyrirtæki í ferðaþjónustu með um 500.000 manns í vinnu, en um helmingur þessara fyrirtækja eru lítil, þ.e. með innan við 10 starfsmenn. Í meðfylgjandi stefnu er lagt til að Norðurlöndin vinni saman að markaðssetningu og rannsóknum á ferðaþjónustunni.
Starfsgreinasambandið hefur tekið virkan þátt í þessari vinnu og lagt metnað sinn í að auka þekkingu og færni í ferðaþjónustunni með mótun styttra náms fyrir fólk sem hefur ekki formlega menntun. Það er þó ljóst að ef við ætlum að treysta á ferðaþjónustuna sem einn af grunnatvinnuvegum okkar til framtíðar þarf að auka menntun og færni í greininni.