Nordiskt Forum hófst í gær

Þessar skelltu sér á Nordisk Forum
Þessar skelltu sér á Nordisk Forum

Ráðstefnan Nordiskt Forum í Malmö sem er skipulögð af norrænu kvennahreyfingunni hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Á ráðstefnunni munu þátttakendur úr öllum áttum, fræðimenn, stjórnmálamenn, aktífistar, fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka, listamenn og femínistar, ræða áskoranir jafnréttisbaráttunnar í dag og lausnir framtíðarinnar. Íslenskar konur á ráðstefnunni skipta hundruðum, þar á meðal eru átta frá Einingu-Iðju.

Á vef ASÍ segir m.a. að Nordiskt Forum í Malmö sé skipulögð af kvennahreyfingunni á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þessa fjóra daga sem ráðstefnan stendur yfir munu þúsundir gesta safnast saman í Malmö til þess að leggja línurnar fyrir jafnréttisbaráttu framtíðarinnar. Dagskrá ráðstefnunnar tekur mið af Peking-yfirlýsingunni frá árinu 1995 þegar Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin og af framkvæmdaáætluninni sem byggist á henni.

Lausnin á vandamálum heimsins hefur aldrei verið og mun aldrei felast í því að draga úr réttindum kvenna. Aukið jafnrétti og hugmyndir kvennahreyfingarinnar geta hins vegar skapað betri heim. Á Nordiskt Forum í Malmö 2014 getum við þróað í sameinungu réttlátara samfélag á Norðurlöndum, í Evrópu og á alþjóðavísu. Verið velkomin að spyrja spurninga, koma með svör og lausnir á Nordiskt Forum í Malmö 2014 – New Action on Women‘s Rights!

Ráðstefnan er haldin í Malmö Arena og MalmöMåssan. Í Malmö eru kjöraðstæður til að ræða jafnréttismál, í borginni hafa verið tekin mörg skref í átt að kynjasamþættingu og jafnrétti kynjanna, þar er boðið upp á barnagæslu á kvöldin og nóttunni og þar hefur verið barist markvisst gegn ofbeldi á konum. Nálægðin við flugvelli, sérstaklega Kastrup flugvöllinn í Kaupmannahöfn, góðar lestarsamgöngur og fallegt umhverfi gerir Malmö að eftirsóknarverðum stað fyrir ráðstefnuhald. Malmö er fullkominn staður fyrir Nordiskt Forum 2014.