Nokkur þúsund króna verðmunur á jólamat

Mestur verðmunur var á grænmeti og ávöxtum, kjöti, konfekti og ís í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem gerð var 15. desember. Allt að 2.750 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af kjöti og 3.402 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af bláberjum.

Bónus var oftast með lægsta verðið, í 79 tilfellum af 137 en Hagkaup oftast með hæsta verðið, í 51 tilfelli. Verð á matvöru getur breyst ört á þessum árstíma og ættu neytendur því að fylgjast vel með verðbreytingum vilji þeir gera hagstæð innkaup á mat fyrir jólin.

Í helmingi tilvika yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á jólamat væri undir 20%, í 64 tilfellum af 137 eða í 47% tilfella. Í 38 tilfellum af 137 eða 28% tilfella var munurinn 20-40% og í 34 tilfellum eða 25% tilfella var munurinn yfir 40%. Í 72 tilfellum eða í 53% tilvika var því munur á hæsta og lægsta verði yfir 40%.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 79 tilfellum af 137 og Krónan næst oftast, í 21 tilfelli. Fjarðarkaup var með lægsta verðið í 12 tilfellum, Nettó og Hagkaup í 9 tilfellum, Iceland og Kjörbúðin í 8 tilfellum og Heimkaup í 6 tilfellum. Hagkaup var oftast með hæsta verðið eins og fyrr segir, í 51 tilfelli af 137. Heimkaup var með hæsta verðið í 28 tilfellum, Iceland 24 sinnum, Fjarðarkaup í 23 tilfellum, Kjörbúðin í 12 og Nettó í sjö tilfellum.

Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið á viðkomandi vöru. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt.

Sjá nánar hér