Nokkur atriði um lífeyrismál - að gefnu tilefni

Eftirfarandi grein er að finna á Heimasíðu ASÍ, en hann ritar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í tilefni af grein sem Gunnar Smári Egilsson skrifaði í Fréttatímann fyrir skemmstu:

Gunnar Smári Egilsson skrifar grein í Fréttatímann fyrir skemmstu þar sem hann veltir því fyrir sér hvort lífeyriskerfið sé vaxið samfélaginu yfir höfuð. Þó greinin sé um margt ágæt finnst mér Gunnar Smári velja sér nokkuð þröngt sjónarhorn þegar hann skoðar stöðu og hlutverk lífeyrissjóðanna í okkar samfélagi. Því vil ég benda á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar fjallað er um lífeyrissjóðina og hvaða væntingar eða kröfur við gerum um kjör okkar þegar kemur að því að við förum á eftirlaun.

1. Í fyrsta lagi er vert að hafa í huga, að þegar ASÍ samdi um lífeyrisréttindi fyrir almennt launafólk árið 1969 var ellilífeyrir almannatrygginga sem nemur 25% af dagvinnulaunum verkamanna og hugtakið ,,tekjutrygging'' ekki til. Á þeim árum var það algerlega ljóst að enginn gat séð sér farborða af slíkum greiðslum og voru eldri borgarar því háðir afkomendum sínum eða sveitarfélögunum um framfærslu. Opinberir starfsmenn höfðu fengið mun ríkulegri lífeyrisréttindi með setningu laganna um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins árið 1946. Foreldrar okkar, afar og ömmur vildu breyta þessu og tryggja að almennt launafólk hefði einnig sómasamlega afkomu á efri árum. Mikil breyting til batnaðar var gerð á skömmum tíma. Annars vegar með stofnun lífeyriskerfisins sem smám saman hefur tekið við framfærslubyrðinni vegna eftirlauna af skattgreiðendum og hins vegar með kynslóðasáttinni sem fól í sér verulega hækkun ellilífeyris þeirra sem voru komnir yfir miðjan aldur árið 1969. Þannig fékk launafólk sem náði ekki að safna sér nægum lífeyrisréttindum áður en að eftirlaunaaldri kom forgjöf í réttindum auk þess sem tekin var upp ,,tekjutrygging'' í almannatryggingum sem lyfti almannaréttinum (lágmarksréttindum) a.m.k. upp fyrir fátæktarmörk. Hafa verður þetta hugfast í umræðunni um lífeyrismál og hvað við teljum ásættanlegan lífeyri. Í dag er staðan sú að lífeyrissjóðirnir standa undir um 67% af öllum ellilífeyrisgreiðslum og stefnir í ríflega 80% á næstu árum.

2. Almenna lífeyriskerfið hefur fram að þessu miðað við að tryggja félagsmönnum 56% af meðaltali ævitekna sinna í ellilífeyri og áður en að eftirlaunaaldri kemur eru lífeyrissjóðirnir líka áfallatryggingasjóðir sem tryggja örorkulífeyri auk barna- og makalífeyris. Til þess að þetta gangi eftir þarf iðgjaldið til sjóðanna að vera 12% af launum (4% frá launamanni og 8% frá atvinnurekanda) og raunávöxtun þeirra að vera 3,5% að meðaltali á ári í þau ca. 65 ár sem einstaka sjóðsfélagar eiga í samskiptum við sjóðina (byrja 16 ára og greiða inn til 67 ára og meðalævilengd er nú um 80 ár). Verði þetta raunin kemur tæplega 60% af þeim ellilífeyri sem við fáum frá ávöxtun og 40% af iðgjaldinu. Því er alveg ljóst að til þess að fjármagna sambærilegan lífeyri frá almannatryggingum í gegnum skattkerfið þurfa skattar að hækka umtalsvert meira en sem nemur þeim 12% sem við leggjum í lífeyrissjóð - talan væri nærri 30%. Við það bætist að í dag eru tæplega 6 á vinnumarkaði fyrir hvern lífeyrisþega en þegar stærstu kynslóðir Íslandssögunnar fara á eftirlaun á næstu 20 árum verða einungis 3 á vinnumarkaði fyrir hvern lífeyrisþega. Það gefur augaleið að skattgreiðendur framtíðarinnar, börn okkar og barnabörn, munu ekki ráða við þessa skattbyrði. Ef við ætlum því að auka ráðstöfunartekjur okkar í dag með því að draga úr greiðslum í lífeyrissjóði og viðhalda sömu væntingum/kröfum um eftirlaun er það ákvörðun um að láta börn okkar og barnabörn borga. Slíkt er vitaskuld algert ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum!  

3. Í greininni vitnar Gunnar Smári til hinna Norðurlandanna um samanburð á sköttum og lífeyrismálum. Fyrir utan Noreg, sem ætlar sér að nota olíugróðann til að standa undir fyrrgreindu vandamáli, hafa öll Norðurlöndin þegar gert ráðstafanir til þess að leysa úr þessum framtíðarvanda velferðarkerfisins og sett á stofn sjóðsmyndunarlífeyriskerfi með íslenska og hollenska lífeyriskerfið sem fyrirmynd. Í Danmörku er t.d. greitt 15-18% iðgjald í lífeyrissjóði til viðbótar við þá skatta sem þar eru. Það er því rangt að tala um að málum sé eitthvað öðruvísi farið þar en hér. Ef við viljum tryggja okkur þau eftirlaun sem væntingar og kröfur standa til, er það í rauninni bara reikningsdæmi hvernig við náum því og hvort við viljum láta vaxtatekjur hjálpa okkur til að ná því marki eða einungis hluta launa okkar. Enn sem komið er hefur sjóðsmyndunarleiðin verið ofan á ef tekið er tillit til allra þátta.

4. Gunnar Smári fjallar síðan um álagið af þessum sparnaði á hagkerfið. Nú er það svo að sparnaður Íslendinga er og hefur löngum verið tiltölulega lítill sem hlutfall af landsframleiðslu. Með stofnun lífeyriskerfisins jókst þetta hlutfall verulega en engu að síður sækjum við verulegt fjármagn til útlanda til að geta fjármagnað stórar fjárfestingar m.a. í atvinnulífinu. Það eru því alveg nýjar fréttir að sparnaður sé orðinn svo mikill að ekki sé hægt að koma peningum í vinnu. Vissulega höfum við búið við afleiðingar fjármálakreppunnar með verulegum takmörkunum á fjárfestingum lífeyrissjóðanna erlendis. Til lengdar getur slíkt ástand leitt til óeðlilegar verðmyndunar á eignamörkuðum og of lítillar áhættudreifingar fyrir lífeyrissjóðina. Ég hygg að allir séu sammála um að lausnin á því sé ekki að hætta að spara heldur koma á þeim aðstæðum í okkar efnahagskerfi að hægt sé að afnema höftin. Seðlabankinn hefur ásamt stjórnvöldum unnið að þessu, m.a. með því að losa um höftin og heimila lífeyrissjóðunum að fjárfesta erlendis. Hyggilegt er að halda áfram á þeirri braut. Síðan er það önnur og ekki síður áleitin umræða hvort íslenska krónan þjóni hagsmunum þjóðarinnar þegar til lengdar lætur, m.a. vegna smæðar hennar. Hætt er við, alveg burt séð frá stöðu lífeyrissjóðanna, að hér verði einhverskonar höft við lýði til langrar framtíðar. 

5. Eins og fram kemur í grein Gunnars Smára hefur náðst víðtækt samkomulag um að launafólk á almennum vinnumarkaði ávinni sér rétt til lífeyris til jafns við opinbera starfsmenn. Þetta hefur verið baráttumál félagsmanna ASÍ allar götur frá árinu 1946 þegar þessi réttindamunur varð til. Með því að ná þessu langþráða markmiði mun ávinnsla réttinda hækka úr 56% í 76% af meðalævitekjum, eða um 36%.Til að ná þessu þarf að hækka mótframlag atvinnurekenda úr 8% í 11,5%, eða til jafns við það sem ríki og sveitarfélög greiða nú þegar. Gunnar Smári skautar reyndar afar hratt framhjá markmiðinu með þessari réttlætiskröfu, að allt launafólk standi jafnt að vígi, og telur þetta dulda skattahækkun. Það er einfaldlega röng fullyrðing. Aukin iðgjöld fara beint til þess að auka réttindi. Það er ekki skattahækkun heldur aukinn sparnaður!  

Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ