Í gær var skrifað undir nokkra nýja kjarasamninga við fyrirtæki á svæðinu og enn eru nokkur fyrirtæki að hugsa sinn gang. Eins og kom fram á síðunni í gær hafa að undanförnu fjölmörg fyrirtæki haft samband við Einingu-Iðju með áhuga á að gera nýjan kjarasamning við félagið eða þá til að kynna sér málin. Samningarnir hafa allir farið í leynilega atkvæðagreiðslu hjá starfsmönnum fyrirtækjanna og allir voru þeir samþykktir.
Í öllum þeim samningum sem búið er að skrifa undir var gengið að ýtrustu kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Vert er að nefna að ekkert fyrirtækjanna er innan Samtaka atvinnulífsins þar sem Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, hefur sagt að hann telji samninga sem þessa marklausa þar sem aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins hafi framselt samtökunum samningsumboð sitt.