Hin árlega eins dags ferð fyrir aldraða Einingar-Iðjufélaga var farin 24. júní sl. Hér á eftir má finna nokkrar vísur sem einn ferðalanga, Davíð Hjálmar Haraldsson, setti saman af því tilefni.
Á austurleið lýsti leiðsögumaður hallandi berglögum við Eyjafjörð og hvernig þungi ísaldarjökulsins mótaði landið.
Fyrrum á tímum þá Ísland var ungt
og ísbirnir fæddu hér húna
var hafísafargið svo ferlega þungt
að fjörðurinn snarhallast núna.
Helga leiðsögumaður fræddi fáfróða farþegana um fugl og fisk í Ljósavatni.
Þennan stað ég þekki ekki neitt,
því má skrifa Helgu fyrir vísunni
en Ljósavatn er langt og fremur breitt
með laxi, karfa, þorski, síld og ýsunni.
Áður en lagt var af stað frá hverjum áningarstað, taldi fararstjóri farþegana (sem sátu tveir og tveir saman) í bílnum.
Við sátum þétt sem söngfuglar á grein
á síberíukvisti eða þyrni
en Ein og ein og Ein og ein og Ein
var ævinlega talningin hjá Birni.
Leiðsögumaður fræddi okkur um stórmerkilegar húsendur í Svartárkoti og Mývatnssveit.
Gaman var á fjöllum og sól í Svartárkoti,
sílspikaðar húsendur voru þar á floti.
Þar skrökvað var í fólkið – sem flest er orðið galið –
það fengið til að halda að endur geti talið.
Helga leiðsögumaður reyndist óþrjótandi fróðleiksnáma. Hún vissi bókstaflega allt um jarðfræðina hvar sem farið var og var ekki sínk á fróðleiksmola.
Í Bárðardal finnst blágrýti
og brúnkol dreift um sandinn
og gabbró, túff og grágrýti
og gull og allur fjandinn.
Farið var í kaffi á Laugum, þá rifjaði leiðsögumaður upp hvernig Björn formaður var í viðvarandi söngkennslu hjá Fikka forðum daga.
Í hlað á Laugum rútan renndi
og rifjuð voru upp kvöldin löng
þegar Fikki kenndi og kenndi
og kenndi og kenndi Birni söng.
Í lok ferðar þakkaði formaður góða þátttöku og lýsti helstu vandamálum við skipulag svona ferða.
Að ferðast þegar fólkið hætt er störfum
er frelsandi og sinnir andans þörfum
og Eining gleðst þó geti fylgt sá vandi
að gamlingjarnir eru sípissandi.
DHH