Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar komnar á netið

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem gerð var fyrir félagið eru komnar á heimasíðuna. Síðustu sex ár hefur Eining-Iðja í samstarfi við AFL Starfsgreinafélag fengið Gallup til að framkvæma viðamikla viðhorfs- og kjarakönnun á meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru byggðar á sambærilegum könnunum sem Efling, Hlíf og Verkalýðs og sjómannafélag Keflavíkur hafa látið gera fyrir sig í nokkur ár, í ár bættist fjórða stéttarfélagið í hóp Flóafélaganna – Stéttarfélag Vesturlands  við. Unnt er að bera saman niðurstöður að verulegu leyti úr þessum könnunum.

Rannsókn sem þessi er afar gagnleg og getur félagið stuðst við niðurstöðurnar á mörgum sviðum til hagsbóta fyrir félagsmenn. Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.

Þegar aðeins er skoðaður hluti félagsins þá svöruðu 752 af þeim 1.500 sem voru í úrtakinu, eða 50,1%. 43,5% svarenda voru karlar en 56,5% konur. Rúmlega 22% svarenda voru undir 25 ára aldri, rúmlega 22% voru á aldrinum 25-34 ára, rúmlega 17% voru á aldrinum 35-44 ára, 19% á aldrinum 45-54 ára og rúmlega 19% voru 55 ára eða eldri.

Heildarlaun

  • Hvað varðar heildarlaun svarenda þá voru þau að meðaltali kr. 442.828 í ár miðað við kr. 408.354 í fyrra og kr. 372.098 árið 2014. 29,6% eru með lægri laun en 349.000. 42,3% eru með laun á bilinu 350.000 til 499.000 og 28% eru með 500.000 eða meira.
  • Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 485.854 en voru í fyrra með kr. 446.493, sem er 8,8% hækkun. Konurnar eru með kr. 397.463 en í fyrra voru þær með kr. 358.937, sem er 10,7% hækkun.
  • Meðal heildarlaun á Akureyri eru kr. 438.337, Dalvík kr. 454.888, í Fjallabyggð kr. 460.340 og á öðrum stöðum í firðinum eru þau kr. 516.801. Á Dalvík varð lækkun á milli ára um kr. 6.820, en aukning á öðrum stöðum. Á Akureyri kr. 33.460, í Fjallabyggð kr. 76.214 og á öðrum stöðum kr. 105.159.
  • Í marktækum svarhópum eru heildarlaun hæst á meðal tækjastjórnenda, gæslu- og öryggisstarfsmanna og lagerstarfsmanna eða kr. 483.814. Lægstu meðalheildarlaun eru í hópnum ræstingar/stuðningsfulltrúar-/skólaliðar/leiðbeinendur eða kr. 354.470 og síðan kr. 407.834 hjá starfsmönnum í mötuneytum eða í veitingastörfum.
Dagvinnulaun

  • Dagvinnulaunin hafa einnig aukist. Nú eru þau að meðaltali kr. 346.128 miðað við kr. 320.284 í fyrra og kr. 283.664 árið 2014. 67,3% eru með 349.000 eða lægra, 26,3% eru með laun á bilinu 350.000 til 499.000 og 6,3% eru með 500.000 eða meira.
  • Ef meðal dagvinnulaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 357.847 en voru í fyrra með kr. 327.235, sem er 9,4% hækkun. Konurnar eru með kr. 334.642 en í fyrra voru þær með kr. 309.031, sem er 8,3% hækkun.

Nánar verður sagt frá fleiri niðurstöðum könnunarinnar á næstu dögum.