Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar komnar á netið

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem gerð var fyrir félagið eru komnar á heimasíðuna. Undanfarin haust hefur Eining-Iðja í samstarfi við AFL Starfsgreinafélag látið framkvæma viðamikla viðhorfs- og kjarakönnun á meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru byggðar á sambærilegum könnunum sem Efling, Hlíf og Verkalýðs og sjómannafélag Keflavíkur hafa látið gera fyrir sig í nokkur ár og því unnt að bera saman niðurstöður að verulegu leyti.

Þegar aðeins er skoðaður hluti félagsins þá svöruðu 729 af þeim 1.500 sem voru í úrtakinu, eða 48,6%. 45,2% svarenda voru karlar en 54,8% konur. Rúmlega 25% svarenda voru undir 25 ára aldri, rúmlega 22% voru á aldrinum 25-34 ára, liðlega 16% voru á aldrinum 35-44 ára, 19% á aldrinum 45-54 ára og rúmlega 17% voru 55 ára eða eldri.

Heildarlaun
Þegar heildarlaun félagsmanna Einingar-Iðju eru skoðuð, þ.e. hjá þeim sem eru í fullu starfi, má sjá að þau eru að meðaltali kr. 408.354 í ár miðað við kr. 372.098 í fyrra og kr. 348.900 árið 2013. 38,1% eru með lægri laun en 349.000. 39,5% eru með laun á bilinu 350.000 til 499.000 og 22,4% eru með 500.000 eða meira. Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 446.493 en voru í fyrra með kr. 409.262. Konurnar eru með kr. 358.937 en í fyrra voru þær með kr. 338.313. Meðal heildarlaun á Akureyri eru kr. 404.877, Dalvík kr. 461.707, í Fjallabyggð kr. 384.125 og á öðrum stöðum í firðinum eru þau kr. 411.642. Aukningin á milli ára á Akureyri er kr. 36.428 og á Dalvík kr. 65.283. Í marktækum svarhópum eru heildarlaun hæst á meðal bílstjórar/lager-/tækjastarfsmenn eða kr. 470.546. Lægstu meðalheildarlaun eru í hópnum ræstingar/stuðningsfulltrúar-/skólaliðar/leiðbeinendur eða kr. 315.397 og síðan kr. 326.963 hjá starfsmönnum í mötuneytum eða í veitingastörfum. 

Þjónusta félagsins
Ánægja með þjónustu Einingar-Iðju er almennt mikil og hefur verið undanfarin ár. 55,5% svarenda sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði.

Rúmlega 95% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru mjög svipaðar niðurstöður og á síðustu árum.

Nánar verður sagt frá fleiri niðurstöðum könnunarinnar á næstu dögum.