Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar komnar á netið

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem gerð var fyrir félagið eru komnar á heimasíðuna. Síðustu fjögur haust hefur Eining-Iðja í samstarfi við AFL Starfsgreinafélag fengið Capacent til að framkvæma viðamikla viðhorfs- og kjarakönnun á meðal félagsmanna sinna. Þessar kannanir eru byggðar á sambærilegum könnunum sem Efling, Hlíf og Verkalýðs og sjómannafélag Keflavíkur hafa látið gera fyrir sig í nokkur ár og því unnt að bera saman niðurstöður að verulegu leyti.

Þegar aðeins er skoðaður hluti félagsins þá svöruðu 741 af þeim 1.500 sem voru í úrtakinu, eða 51,7%. Þetta er 3,5% verri þátttaka en síðast. 41,2% svarenda voru karlar en 58,8% konur. Rúmlega 21% svarenda voru undir 25 ára aldri, rúmlega 16% voru á aldrinum 25-34 ára, tæplega 16% voru á aldrinum 35-44 ára, rúmlega 23% á aldrinum 45-54 ára og rúmlega 23% voru 55 ára eða eldri.

Heildarlaun
Þegar heildarlaun félagsmanna Einingar-Iðju eru skoðuð, þ.e. hjá þeim sem eru í fullu starfi, má sjá að þau eru að meðaltali 372.000 krónur og hafa þau hækkað um 60 þúsund krónur (19,3%) frá því er fyrsta könnunin var gerð haustið 2011. Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 409.262 en voru í fyrra kr. 396.607. Konurnar eru með kr. 338.313 en í fyrra var upphæðin kr. 302.066. Hækkunin á tímabilinu er heldur meiri hjá körlum heldur en konum. Þannig hafa heildarlaun karla hækkað um 73 þúsund á síðustu tveimur árum eða um 21,6% meðan heildarlaun kvenna hafa hækkað um 56 þúsund krónur eða 20,0%. Ef aðeins er skoðuð hækkun milli áranna 2013 og 2014 á heildarlaunum þá hækkuðu karlar að meðaltali um 3,2% en konur um 12%.

Heildarlaun eru að jafnaði hæst hjá félagsmönnum sem búa á Dalvík, eða um 396 þúsund krónur, á meðan heildarlaun á Akureyri eru um 368 þúsund krónur. Talsverður munur er á heildalaunum eftir starfsstéttum. Heildarlaun eru hæst hjá bílstjórum og tækjastjórnendum, en sá hópur vinnur hefur að jafnaði lengstan vinnutíma. Lægstu meðalheildarlaun eru í ræstingar/skólaliðar/leiðbeinendur eða kr. 301.185 og síðan kr. 354.666 í umönnunarstörfum.

Þjónusta félagsins
Ánægja með þjónustu Einingar-Iðju er almennt mikil og hefur verið undanfarin ár. Tæp 62% svarenda sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði miðað við 55% í fyrra. Þeir sem ekki nýttu sér þjónustu félagsins voru spurðir hvers vegna þeir hefðu ekki gert það. 117 eða tæp 72% svöruðu að þeir hefðu ekki þurft á þjónustunni að halda.

Tæp 94% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru mjög svipaðar niðurstöður og á síðustu tveimur árum.

Nánar verður sagt frá fleiri niðurstöðum könnunarinnar á næstu dögum.