Á heimasíðu Starfsgreinasambandsins segir að SGS hefur í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins unnið að verkefni um starfsmenntun í matvælaiðnaði og færnigreiningu starfa. Fenginn var styrkur frá Menntamálaráðuneytinu og í dag var kynntur afrakstur hluta af þessu verkefni; könnun meðal starfsfólks um áhuga og þörf á menntun unnin af Maskínu í mars 2013.
Fyrst skal greint frá því að það voru töluverð vandræði að ná í þá sem lentu í úrtakinu því þessi geiri virðist hafa marga á að skipa sem flytja reglulega, búa ekki þar sem þeir eru skráðir og staldra stutt við. Það er niðurstaða í sjálfu sér að þessi hópur skeri sig úr að þessu leyti en til samanburðar má nefna að fyrir skömmu var unnin sambærileg rannsókn í hótel- og veitingabransanum en þar reyndist töluvert betra að ná í fólk. Í þessari könnun var skoðað fólk í matvælaframleiðslu að fiskvinnslunni undanskilinni.
Aðildarfélög innan SGS tóku saman félaga í þessum greinum og úrtakið var unnið upp úr þeim gögnum. Ekki veittu öll félög aðgang að upplýsingum þannig að niðurstaðan var sú að könnunin var lögð fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu, Eyjafirði, Húsavík, Sauðárkróki, Austurlandi, Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Svarhlutfall var 56,2% og spurt var á íslensku, pólsku og ensku.
Helstu niðurstöður könnunarinnar voru að menntunarstigið er frekar lágt í greininni en þeir sem náðust í hafa frekar háan starfsaldur innan greinarinnar. Tæplega helmingur hefur unnið í greininni lengur en 5 ár og rúmur fjórðungur lengri en 10 ár. Áhugi á frekari menntun minnkar með hækkandi starfaldri en það fólk hefur meiri áhuga á styttri námsleiðum sem nýtast beint í starfinu.
Það sem er helst í boði í fræðslu á vinnustöðunum tengist störfunum beint en nokkur munur kom fram á milli landssvæða. Þannig virðast Norðanmenn vera duglegri að mennta sitt fólk inni í fyrirtækjunum. Athygli vekur að fleiri Íslendingar segja að engin fræðsla sé í boði heldur en útlendingar og fleiri karlar segjast enga fræðslu fá en konur. Það er þó ánægjulegt að rúmlega helmingur segir fræðsluna hafa haft nokkur eða mikil áhrif á stöðu sína innan fyrirtækisins.
Það þarf ekki að koma á óvært að bein tengsl eru á milli þess að fólk upplifir fræðslu skila árangri og frekari áhuga á fræðslu. Þá er mjög jákvætt viðhorf gagnvart menntun í heild sinni hvort sem hún er í tengslum við fyrirtækið eða ekki, en 60% aðspurðra hafa frekar eða mikinn áhuga á að auka menntun sína.
Helsti hvatinn til að auka við sig þekkingu er að laun hækki en fólk nefndi líka aukna starfsánægju í kjölfar fræðslu.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að það eru töluvert mikil tækifæri til að auka fræðslu og menntun, hvort sem hún er innan fyrirtækjanna og í beinum tengslum við starf viðkomandi eða almennt í gegnum skólakerfið. Þá er töluvert stór hópur sem ætlar sér að starfa innan greinarinnar áfram og vill dýpka þekkingu sína og auka færni innan sviðsins.
Könnunina í heild má nálgast hér.