Á heimasíðu ASÍ segir að mikill munur er á reglum sveitarfélaganna um niðurgreiðslu vegna gæslu ungra barna hjá dagforeldrum í heimahúsum. Kostnaður foreldra er því mjög misjafn eftir búsetu og er víða á bilinu 50.000-70.000 krónur á mánuði auk fæðiskostnaðar. Einungis fjögur af 15 stærstu sveitarfélögum landsins eru með reglur um hámarksgjald fyrir þjónustu dagforeldra, í öðrum sveitarfélögum er gjaldtaka dagforeldra með þjónustusamning við sveitarfélögin frjáls.
Almenn niðurgreiðsla vegna daggæslu í heimahúsi
Mjög takmarkaðar upplýsingar er hægt að nálgast af heimasíðum sveitarfélaganna varðandi heildarkostnað fyrir gæslu hjá dagforeldrum. Þessar upplýsingar voru einungis tiltækar á heimasíðum 4 af 15 stærsu sveitarfélögum landsins og var þá um gjald án fæðis að ræða. Það má gera ráð fyrir að þjónustusamingar sem sveitarfélögin geri séu jafn mismunandi og þau eru mörg. Það sama má segja um niðurgreiðslur sem sveitarfélögin veita af þessari þjónustu. Borgarbyggð niðurgreiðir mest eða 65.270 kr. á mánuði en Sveitarfélagið Árborg minnst 30.000 kr. Engar upplýsingar var að finna á heimasíðum sveitarfélaganna varðandi kostnað foreldra vegna fæðis.
Forgangshópar
Viðbótar niðurgreiðsla er veitt til forgangshópa hjá sveitarfélögunum, en ekki var tilgreint á Akranesi og í Reykjanesbæ hvort um viðbótar niðurgreiðslur væri þar að ræða. Sveitarfélagið Árborg og Borgarbyggð greiða viðbótar niðurgreiðslu til þessara hópa en ekki var tilgreint hvert viðmiðið væri eða hve há viðbótargreiðslan er. Hæsta niðurgreiðsla hjá þeim sveitarfélögum sem birta upphæð niðurgreiðslna fyrir forgangshópa er 87.200 kr. í Hafnarfirði og lægst 43.440 kr. í Vestmannaeyjum.
Sveitarfélögin bera ábyrgð á að umsjón og eftirlit sé haft með starfssemi dagforeldra sem sjá um daggæslu barna í heimahúsum samkvæmt reglugerð frá félagsmálaráðuneytinu. Reglugerðin tekur á grundvallar umgjörð varðandi daggæslu í heimahúsum og hvernig bregðast skuli við ef skilyrði sem þar eru sett fram eru ekki uppfyllt. Sveitarfélögin setja sér reglur varðandi niðurgreiðslur á gjaldi fyrir þessa þjónustu og gera þjónustusamninga við dagforeldra. Þessar reglur geta verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og þar af leiðandi mjög misjafnt hversu stóran hluta af dagvistargjaldi foreldrar bera. Fjölskyldugerð og aldur barns geta haft áhrif á hversu mikil niðurgreiðslan er, en mörg sveitarfélög veita auka niðurgreiðslu eftir að barn er orðið átján mánaða
Nánari upplýsingar um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum.
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði niðurgreiðslu, 15 stærstu sveitarfélaga landsins, á daggæslu í heimahúsum dagana 1. til 8. mars 2017.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.