Neyðarástand í húsnæðismálum er þjóðarmein

Björn Snæbjörnsson
Björn Snæbjörnsson

Eitt stærsta hagsmunamál verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum er að tryggja að húsnæðismál verði tekin föstum tökum og stuðla að því að allt launafólk hafi aðgang að öruggu og góðu íbúðarhúsnæði, óháð búsetu og tekjum. Til þess að svo megi verða er augljóst að ríki og sveitarfélög verða, til dæmis, að styðja vel  uppbyggingu almennra leiguíbúða um land allt.

Við getum verið sammála um að neyðárástand ríki á húsnæðismarkaðinum. Meðal annars er um að kenna litlu framboði íbúða til leigu, gífurlegri fjölgun á leiguíbúðum til  ferðamanna, verulega háum byggingakostnaði. Auk þess er vaxtakostnaður og verðtrygging ekki í neinu samræmi við það sem gerist annarsstaðar. Í ofanálag hafa stjórnvöld í langan tíma vanrækt hlutverk sitt á húsnæðismarkaði, þannig hefur húsnæðisstuðningur hins opinbera verið skorinn niður og alls ekki haldið í við þróun verðlags og launa.

Þessir þættir hafa leitt til þess að allt of stór hluti af ráðstöfunartekjum launafólks fer til greiðslu fyrir húsnæði. Eðli málsins samkvæmt bitnar þessi staða illa á ungu fólki, sem er að hefja búskap.

Afleiðingin er aukinn ójöfnuður, frekari stéttaskipting og stórlega aukið vinnuálag. Þessi staða læsir fólk einfaldlega í fátæktargildru. Það er ótækt.

 

Stofnun Bjargs íbúðafélags er stórt skref í rétta átt

Alþýðusamband Íslands hefur sett á laggirnar sérstaka húsnæðisnefnd sem ætlað er að vinna náið með sérfræðingum við að útfæra stefnu í húsnæðismálum til framtíðar. Verkalýðshreyfingin hefur á margan hátt verið leiðandi við uppbyggingu almennra leiguíbúða og mótun hugmynda um sanngjarnan húsnæðismarkað og varanlegt, traust húsnæðiskerfi.

Við gerð síðustu kjarasamninga náðist mikilvægur áfangi í húsnæðismálum og í kjölfarið stofnuðu ASÍ og BSRB „Bjarg íbúðafélag,“ sem rekið er án hagnaðarmarkmiða og ætlað er að tryggja aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði til langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd „Almene boliger.“

Bjarg íbúðafélag hefur samið við nokkur sveitarfélög um samstarf, þannig er stefnt að byggingu 75 íbúða á vegum félagins á Akureyri. Í fyrsta áfanga verða byggðar 25-30 íbúðir. Við hönnun íbúðanna eru hagsýni og gæði höfð að leiðarljósi. Stofnun Bjargs íbúðafélags var vissulega stór áfangi í þessum efnum og gott dæmi um hverju samstaða getur komið til leiðar. Vandinn er hins vegar stór og þess vegna er nauðsynlegt að styrkja félagslega kerfið enn frekar. Í komandi kjaraviðræðum verður mikil áhersla lögð á það.


Höggvum á hnútinn

Alþýðusamband Íslands er með skýra sýn í húsnæðismálum og ætlar sér að vera áfram leiðandi í umræðunni, markmiðið er að heimilum í almenna leiguíbúðakerfinu verði fjölgað þannig að jafnvægi náist á markaðnum. Til þess að því markmiði verði náð þarf meðal annars að lækka húsnæðislánavexti og taka upp nýtt húsnæðislánakerfi, þar sem hagsmunir leigutaka eru leiðréttir og gerðir sanngjarnir. Að sama skapi þarf að setja reglur um starfsemi leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni og að leigjendur verði varðir gegn hækkun á leigu langt umfram raunkostnað og öðrum ósanngjörnum skilmálum leigutaka.

Nauðsynlegt er að lækka byggingakostnað og taka mið að skynsamlegum skipulagskostum sem samræmast þörfum launafólks fyrir hentugt, venjulegt, öruggt og gott íbúðarhúsnæði. Þá þurfa sveitarfélögin að tryggja jafnt og fjölbreytt framboð lóða á lágu verði.

Í komandi kjaraviðræðum þarf að þrýsta á stjórnvöld um að bæta lög um húsnæðis-samvinnufélög, þannig að þau nái til fleiri aðila en þau gera í dag. Verkefnið er viðamikið, og á þennan hnút verður að höggva. Verkalýðshreyfingin er einbeitt í þessum efnum.

 

Réttlátt skattkerfi

Skattbyrði á lág- og milli-tekjuhópa hefur aukist á síðustu áratugum. Þetta verður að leiðrétta, enda á skattkerfið að vera raunverulegt jöfnunartæki. Þess vegna er það krafa verkalýðshreyfingarinnar að lægstu launin verði gerð skattfrjáls með hækkun persónuafsláttar sem fylgi launaþróun. Að sama skapi þarf að stokka upp húsnæðis- og barnabótakerfin, þannig að stuðningurinn renni sannarlega til hinna tekjulægstu.

Verkalýðshreyfingin krefst þess að hæstu tekjurnar verði skattlagar með sérstöku hátekjuþrepi, lagður verði á auðlegðarskattur og fjármagnstekjuskattur hækkaður. Brugðist verði við skatta-undanskotum og að notendur sameiginlegra auðlinda greiði eðlilegt gjald fyrir afnotin. Við skulum ekki læsa fólk í gildru fátæktar og ójöfnuðar að óþörfu. Við hljótum að vilja búa í landi þar sem launafólk nýtur mannsæmandi kjara og réttinda, svo sem húsnæðisöryggis sem fjármagnað er með réttlátu skattkerfi.

Neyðárástand í húsnæðismálum er þjóðarmein, sem við getum leiðrétt með samstilltu átaki.

Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.