Síðastliðinn fimmtudag komu nokkrir nemendur sem eru á almennri braut í VMA og sitja áfanga sem heitir ATF – Atvinnufræði í heimsókn á skrifstofu Einingar-Iðju á Akureyri. Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, tók á móti þeim og kennara þeirra og kynnti fyrir þeim starfsemi Einingar-Iðju. Hann fór einnig almennt yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Það er alltaf gaman að fá góða gesti til félagsins. Miklar og góðar umræður urðu og hópurinn greinilega áhugasamur um málefnið.
Skólaheimsóknir
Á hverjum vetri fara starfsmenn félagsins í nokkrar skólaheimsóknir í VMA og stundum MA og kynna réttindi og skyldur á vinnumarkaði fyrir
yngstu nemendur skólanna. Hver heimsókn stendur yfir í tvær kennslustundir.
Frá árinu 1998 hafa starfsmenn Einingar-Iðju farið í skólaheimsóknir í alla 10. bekki á félagssvæðinu. Í þessum heimsóknum er dreift bæklingnum „Láttu ekki plata þig!“ og kynnt fyrir nemendum í hverju starf verkalýðsfélaga er fólgið og um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Bæklingurinn er sérstaklega ætlaður ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Með bæklingnum býður verkalýðshreyfingin allt ungt fólk velkomið í hóp félaga sinna og heitir því liðsinni sínu og væntir einnig þátttöku ungs fólks í félagslegu starfi hreyfingarinnar.