Nei, þetta er ekki heimtufrekja. Þvert á móti.

Það eru söguleg tímamót að öll aðildarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands standa saman að kröfugerð í komandi kjaraviðræðum. Það gefur augaleið að sameinuð standa félögin sterkar að vígi við samningaborðið. Við mótun kröfugerðarinnar var grasrótin virkjuð og kallað var eftir sjónarmiðum sem flestra. Félögin hafa nú birt kröfur sínar, annars vegar gagnvart atvinnurekendum og hins vegar gagnvart stjórnvöldum. Í þessari grein er aðeins stiklað á helstu kröfum félaganna. 

Aðalkrafan

Forsenda þess að undirritaður verði kjarasamningur er að launafólk geti framfleytt sér af dagvinnulaunum og þau samræmist opinberum framfærsluviðmiðum. Gerð er krafa um að nýr samningur gildi frá næstu áramótum. Stefnt er að því að semja til þriggja ára, en þó með skýrum og mælanlegum forsenduákvæðum, meðal annars jöfnunarstuðli, þannig að þær launahækkanir sem samið verður um fyrir lág- og millitekjuhópa umbreytist ekki sjálfkrafa í ofurlaunahækkanir til þeirra hæst launuðu. Samið verði um krónutöluhækkanir. Krafa félaganna er að lármarkslaun verði 425 þúsund krónur í lok samningstímans, að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga. Launataflan verði endurskoðuð og einfölduð verulega og skilgreint verði hlutfall á milli flokka og þrepa.

Félögin krefjast þess að orlofs- og desemberuppbætur hækki og að 1.maí verði skilgreindur sem stórhátíðardagur.

Er það heimtufrekja að krefjast þess að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum?

-         Nei, þessar kröfur kallast ekki heimtufrekja. Þvert á móti.

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Augljóst er að hrinda þarf af stað þjóðarátaki í húsnæðismálum, kröfugerð félaganna í þeim málaflokki er skýr og afdráttarlaus. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til að þjóðarátakið verði að veruleika.

Markmiðið verði að tryggja að minnsta kosti 1250 nýjar íbúðir á ári, og að millitekjuhópar og verka- og láglaunafólk með miklar yfirvinnutekjur hafi aðgang að húsnæði sem til verður í slíku átaki. Horft verði til möguleika lífeyrissjóðanna að koma með markvissum hætti að uppbyggingu húsnæðis. Breytingar verði gerðar á lagaumhverfi leigumarkaðar í þá veru að takmarka skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis í ferðaþjónustu. Hækkanir leiguverðs og trygging greidd af leigutaka verði skilmerkilega takmarkaðar. Leigusamningar verði almennt til langs tíma. Tryggt verði að þeim sem eru að kaupa fyrstu íbúð verði veitt aukin aðstoð og húsnæðis- og vaxtabætur stórlega hækkaðar.

Er það heimtufrekja að krefjast þjóðarátaks í húsnæðismálum?

-         Nei, slíkar kröfur kallast ekki heimtufrekja. Þvert á móti.

Lægstu launin skattfrjáls

Félögin krefjast þess að lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Sá persónuafsláttur sem um semst þarf að fylgja launaþróun þannig að ekki dragi jafnt og þétt úr tekjujöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins eins og raunin varð á síðustu áratugum. Fjármagnseigendur verði ekki undanskildir ábyrgð og fjármagnstekjuskattur verði hækkaður til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármagnseigendur verði heldur ekki undanskildir greiðslu útsvars. Þá þarf að endurskoða fasteignaskatt þannig að hann stökkbreytist ekki með markaðshækkunum á verði íbúðarhúsnæðis og verði þar með óeðlilega íþyngjandi fyrir almennt launafólk sem hefur tekist að fjármagna íbúðakaup sín. Slíkur forsendubrestur er óþolandi.

Er það heimtufrekja að krefjast þess að lægstu launin verði skattfrjáls?

-         Nei, sú krafa getur varla talist vera heimtufrekja.

Almannatryggingar og bætur

Félögin krefjast þess að barnabætur verði hækkaðar og dregið úr skerðingum þannig að skerðingar komi ekki til áhrifa undir lágmarkstekjum og skerðingarviðmið fylgi síðan launaþróun. Einnig að vaxta- og húsnæðisbætur hækki og að dregið verði úr skerðingum vegna tekna og eigna. Lögð er áhersla á að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarahækkana og launafólk á almenna vinnumarkaðnum. Draga þarf verulega úr áhrifum skerðinga hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum í almannatryggingakerfinu.

Er það heimtufrekja að hækka barnabætur og bæta hag öryrkja og aldraða?

-         Nei, sú krafa getur varla talist vera heimtufrekja. Þvert á móti.

Brotastarfsemi á vinnumarkaði verði gerð refsiverð

Félögin gera kröfu um að tekið verði á brotastarfsemi á vinnumarkaði og kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð með skýrum hætti og sektir vegna slíkra brota lögfestar. Auka þurfi valdheimildir stéttarfélaga til gagnaöflunar í fyrirtækjum og heimildir til að beita sektum verði auknar. Vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga verði eflt og einnig verði komið á reglubundnu og stórefldu samstarfi stéttarfélaga við Vinnueftirlit ríkisins, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, lögregluna, heilbrigðiseftirlitið og aðra eftirlitsaðila vegna brota gegn starfsfólki hvað varðar launagreiðslur, aðbúnað í vinnu og húsakost. Tekið verði á kennitöluflakki með skýrum og ábyrgum hætti með það fyrir augum að stöðva kennitöluflakk.

Er það heimtufrekja að krefjast þess að brotastarfsemi á vinumarkaði verði gerð refsiverð?

-         Nei, sú krafa getur varla talist vera heimtufrekja. Þvert á móti.

Stytting vinnuvikunnar

Félögin krefjast þess að á samningstímanum verði markvisst stefnt að 32 stunda vinnuviku. Við útfærslur á styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar verði tekið tillit til þeirrar vinnu sem almennt verkafólk stundar og þar sem mælanleg afkastaaukning er erfið í framkvæmd, svo sem störf í þjónustu, umönnun, á færiböndum o.s.frv. Vinnuskylda í vaktavinnu verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks og fyrir það verði greidd full laun og hlutfallslega miðað við starfshlutfall.

Er það heimtufrekja að krefjast þess að vinnuvikan verði stytt?

-         Nei, þvert á móti. Vinnuvikan á Íslandi er löng, miðað við mörg önnur þjóðlönd.

Samstaða

Sagan sýnir okkur að samstaða skilar árangri. Verkalýðshreyfingin hefur undirbúið kröfur sínar af kostgæfni og telur þær raunhæfar og sanngjarnar. Það verður forvitnilegt að heyra svör vinnuveitenda og ríkisins við kröfum sem við teljum sjálfsagðar og eðlilegar. Kröfugerðir félaganna sem standa að  Starfsgreinasamband Íslands eru birtar á heimasíðu samtakanna (www.sgs.is) og á heimasíðum flestra aðildarfélaganna, svo sem Einingar-Iðju (www.ein.is)

Ég hvet lesendur til þess að skoða kröfurnar og meta hvort verkalýðshreyfingin er með heimtufrekju.

-         Meti hver fyrir sig.

Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.