Nauðsynlegt að hafa það skriflegt

Miðvikudaginn 19. júní 2013 var kveðinn upp í Hæstarétti Íslands dómur í máli launþega, félagsmanns Einingar-Iðju, gegn atvinnurekanda á Akureyri. Í málinu krafði hann vinnuveitandann um vangoldin orlofslaun við starfslok. Launþeginn taldi að hann hefði ekki fengið greitt orlof af launum sínum um nokkurra ára skeið. Hann kvaðst hafa gert við þetta munnlegar athugasemdir við vinnuveitandann nokkrum sinnum á þeim árum sem hann vann hjá félaginu, en hafði ekki gert það skriflega.

Vinnuveitandinn neitaði greiðsluskyldu og byggði m.a. á því að orlofslaun hafi verið hluti af heildarlaunum launþegans auk þess sem hann hafi sýnt af sér tómlæti með því að hreyfa engum andmælum við þeirri framkvæmd, en með því mótmælti vinnuveitandinn staðhæfingu launþegans um að hann hefði gert athugasemdir við fyrirkomulag orlofsgreiðslna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilhögun vinnuveitandans við greiðslu orlofs hafi farið í bága við fyrirmæli 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Þess væri þó að gæta að launþeginn hafi ekki getað látið átölulaust um árabil hvernig staðið var að uppgjörinu í trausti þess að geta haft uppi kröfu í kjölfar starfsloka, en dómurinn taldi að launþeginn yrði að sanna að hann hefði gert athugasemdir. Þegar af þeirri ástæðu að launþeginn hafði ekki gert reka að því að halda fram ætlaðri kröfu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna vinnuveitandann af kröfu launþegans.

Dómurinn sýnir að það er mjög mikilvægt að félagsmenn gæti eigin réttar í garð vinnuveitanda með formlegum hætti, um leið og þeir verða þess áskynja að þeir njóti ekki þeirra kjara sem þeir telja sig hafa samið um. Þau skref kunna að virðast þung, að fara með ákveðnum og skriflegum hætti gegn vinnuveitanda sínum með kröfur um laun eða önnur starfskjör. Dómurinn í ofangreindu máli staðfestir að eina leiðin fyrir félagsmenn til að tryggja sér sönnun fyrir athugasemdum er að gera þær skriflega. Um leið er líka nauðsynlegt að fylgja málinu eftir, því hætt er við að litið verði svo á, að félagsmaður tapi réttinum til að krefjast úrbóta, geri hann það ekki beint í kjölfar þess að hann verður var við að hann sé vanhaldinn í launum eða öðrum kjörum.

Ef félagsmaður telur sig hlunnfarinn í launum er mikilvægt að hafa strax samband við félagið og fá liðsinni þess við að yfirfara starfskjörin og meta hvaða viðbrögð eru rétt í hverju tilviki. Í flestum tilvikum er þess að vænta að mál leysist með góðu samkomlagi vinnuveitanda og viðkomandi starfsmanns, ef einhverjir hnökrar kunna að vera á kjörum. Í öðrum tilvikum kann að reynast nauðsynlegt að færa mál í formlegan farveg og fylgja réttindum félagsmanns fast eftir með skriflegri kröfugerð.