Nánar um vetrarleiguna

Félagsmönnum Einingar-Iðju standa til boða í vetur sex góðir valkostir í orlofsmálum. Hér er um að ræða dvöl í orlofshúsum á Illugastöðum, Tjarnargerði, Svignaskarði og Einarsstöðum og orlofsíbúðir félagsins í Reykjavík og á Egilsstöðum.
 
Það eru ekki dregnir af punktar í vetrarleigu, nema þegar um er að ræða tímabilin jól og áramót og svo um páska. Það þarf að sækja um þau tímabil og er þeim úthlutað eftir punktainneign viðkomandi.
 
Auðveldast er að panta á Félagavefnum, en auðvitað er hægt að hringja í skrifstofur félagsins og panta hús eða bústað.

Lægra verð fyrir lífeyrisþega
Lífeyrisþegar greiða kr. 7.500 fyrir þrjár nætur í miðri viku á Illugastöðum. Hægt er að kaupa eina aukanótt á kr. 2.000.


Verðskrá veturinn 2013 - 2014

Illugastaðir

  • Vikuleiga er kr. 22.000 og helgarleiga kr. 14.000. Helgarleiga er allt að þrjár nætur. 
  • Heitur pottur er við húsin.
  • Lyklar eru afhentir í þjónustumiðstöð svæðisins.

Tjarnargerði

  • Vikuleiga er kr. 26.000 og helgarleiga kr. 16.000. Helgarleiga er allt að þrjár nætur. 
  • Heitur pottur er við húsið.
  • Lyklar að Tjarnagerði eru afhentir á skrifstofu félagsins í Skipagötu 14 á Akureyri.
Svignaskarð

  • Vikuleiga er kr. 22.000 og helgarleiga kr. 14.000. Helgarleiga er allt að þrjár nætur. 
  • Heitur pottur er við húsið.
  • Lyklar eru afhentir í þjónustumiðstöð svæðisins.
Einarsstaðir (Staðarhaldarinn á Einarsstöðum, Guðni Hermannsson, sér um að leigja húsið að vetri til)
 
  • Vikuleiga er kr. 22.000 og helgarleiga kr. 14.000. Helgarleiga er allt að þrjár nætur. 
  • Heitur pottur er við húsið.
  • Lyklar eru afhentir í þjónustumiðstöð svæðisins.
Reykjavík

  • Íbúðir í Reykjavík leigjast í viku í senn, fyrir utan sjúkraíbúð sem leigist eftir þörfum.
  • Vikuleiga er kr. 23.000, en sólarhringsleiga sjúkraíbúðar er kr. 4.000. Lágmarksgjald er þó kr. 5.000.
  • Lyklar að íbúðunum eru afhentir á skrifstofum félagsins.
Egilsstaðir

  • Vikuleiga er kr. 23.000 og helgarleiga kr. 14.000. Helgarleiga er allt að þrjár nætur.
  • Lyklar eru afhentir á skrifstofu félagsins í Skipagötu 14 á Akureyri.

Nánar um staðina:

Illugastaðir
Orlofsbyggðin á Illugastöðum í Fnjóskadal er opin allt árið. Aðeins eru 45 km milli Akureyrar og Illugastaða og því stutt að fara. Aðstaðan á Illugastöðum er eins og best verður á kosið. Eining-Iðja á 14 hús á svæðinu sem voru öll tekin í gegn fyrir nokkrum árum. Vert er að benda á að félagið á þar eitt sérútbúið hús fyrir fatlaða, hús nr. 26.

Sundlaugin er lokuð yfir vetrartímann. Í kjarnahúsinu er fundarsalur sem tekur allt að eitt hundrað manns og því eru Illugastaðir kjörinn staður fyrir fundi, ráðstefnur, námskeið eða mannfagnaði hvers konar. Hægt er að fá tilboð í veitingasölu og uppihald.

Benda má á að í Fnjóskadal er mjög gott berjaland og hægt er að fá leyfi til berjatínslu á Illugastöðum. Þar eru einnig seld veiðileyfi í Fnjóská. Fyrir rjúpnaskyttur eru Illugastaðir einnig áhugaverður kostur því þaðan er stutt að komast í góðar veiðilendur. Yfir vetrarmánuðina er upplagt að drífa sig til Illugastaða og taka skíðin og sleðana með því land fyrir gönguskíðafólk er frábært. Einnig eru miklir möguleikar til notkunar vélsleða en gæta þarf þó að trjágróðri á svæðinu. Á Illugastöðum hefur verið plantað um 100.000 plöntum sem eru sem óðast að setja svip sinn á landið.

 

Tjarnargerði í Eyjafjarðarsveit
Eining-Iðja á orlofshús í Tjarnargerði í Eyjafjarðarsveit í félagi við Bílstjórafélag Akureyrar. Húsið er nokkurra ára gamalt en allt nýuppgert, vel búið með heitum potti og allt hið glæsilegasta. Staðsetningin er kjörin fyrir þá sem kjósa að komast í kyrrð og frið án þess að þurfa að aka um langan veg en fram í Tjarnargerði er aðeins um hálftíma akstur frá Akureyri. Eins og margir þekkja er náttúrufegurð mikil á þessum slóðum, örstutt í Leyningshóla og fleiri náttúruperlur. Óhætt er að fullyrða að óvíða er betra að slappa af og hlaða batteríin, eins og gjarnan er sagt.


Reykjavík
Orlofsíbúðir í Reykjavík eru allan ársins hring mikið notaðar af félagsmönnum Einingar-Iðju. Félagið á sjö íbúðir í Reykjavík, en tvær þeirra eru notaðar sem sjúkraíbúðir. Félagið leigir einnig eina íbúð í Reykjavík. Íbúðirnar eru allar miðsvæðis í borgini og því mjög vel staðsettar.
 
Tvær íbúðir í Sólheimum
Félagið keypti á árinu 2011 tvær íbúðir í fjölbýlishúsinu Sólheimar 27. Önnur íbúðin er 104 m2 fjögurra herbergja íbúð á fjórðu hæð og hin er 89 m2 þriggja herbergja íbúð á sjöundu hæð. Félagið lét taka báðar íbúðirnar allar í gegn að innan þannig að þær eru í mjög góðu standi.


Þrjár íbúðir í Ljósheimum
Félagið á tvær orlofsíbúðir í fjölbýlishúsum við Ljósheima, en sjúkrasjóður félagsins hefur þá þriðju til ráðstöfunar. Tvær íbúðanna eru fjögurra herbergja og ein þriggja herbergja. Íbúðirnar njóta allar mikilla vinsælda og eru vel nýttar allan ársins hring, enda gefst félagsmönnum, með dvöl í íbúðunum, kostur á að njóta alls þess sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða. Nýverið voru stærri íbúðirnar allar teknar í gegn að innan; skipt var um eldhúsinnréttingu, settar í þær uppþvottavél, málað, keypt ný húsgögn og fleira.

Íbúðirnar þrjár eru búnar öllum helstu heimilistækjum og í hverri íbúð er svefnpláss fyrir sex manns.

Þrjár íbúðir í Ásholti
Félagið á tvær íbúðir í Ásholti 2 og leigir þar að auki eina íbúð í húsinu. Önnur íbúðin sem félagið á er notuð sem sjúkraíbúð en hin er einstaklega glæsileg, 107 fermetrarað stærð, fjögurra herbergja íbúð. Þar er að finna öll þægindi í notalegu umhverfi í miðborginni. Íbúðin sem félagið leigir er á 6. hæð og er 60 fermetrar að stærð.

Lyklar að íbúðunum í Reykjavík eru afhentir á skrifstofum félagsins.


Egilsstaðir
Í fjölbýlishúsi við Útgarð 6 á Egilsstöðum á Eining-Iðja orlofsíbúð sem nýtur mikilla vinsælda. Frá Egilsstöðum liggja vegir til allra átta og ætti að vera hægur vandi að dvelja í orlofsíbúð þar og skipuleggja ferðir um nánast allt Austurland án þess að þurfa að flytja sig um set og gista annars staðar en á Egilsstöðum.
Íbúðin var öll tekin í gegn í vorið 2013, fyrir utan eldhúsið sem tekið var í gegn fyrir nokkrum árum. M.a. var skipt um hurðir og gólfefni. Miklar breytingar voru gerðar á baðherberginu og öll íbúðin málið.
Lyklar að íbúðinni á Egilsstöðum eru afhentir á skrifstofum félagsins.
 
Einarsstaðir
Félagið á eitt hús í orlofsbyggðinni á Einarsstöðum. Heitur pottur er við húsið. Sumarhúsin að Einarsstöðum eru í um 11 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en þar er hægt að sækja alla almenna þjónustu, sundlaug, heita potta, matvöruverslanir, flugsamgöngur, lyfjaverslun o.fl.
 
Áhugasamir geta hringt beint í staðarhaldarann á Einarsstöðum, Guðna Hermannsson, í síma 861 8310 en hann sér um að leigja húsið að vetri til.

Svignaskarð í Borgarfirði
Í orlofshúsahverfinu í Svignaskarði í Borgarfirði á Eining-Iðja eitt hús og er það til útleigu allt árið. Nýtt og glæsilegt hús var tekið í notkun vorið 2012 og er það um 75 fermetrar að stærð með öllum helstu þægindum og heitum potti.

Í húsinu eru þrjú svefnherbergi, setu- og borðstofa með eldhúskrók og baðherbergi m/sturtu. Svefnpláss er fyrir átta 8 manns.Margar skemmtilegar gönguleiðir liggja frá orlofshúsunum og stutt er í frábærar sundlaugar, til dæmis í Borgarnesi og Varmalandi. Þá er aðeins rúmlega klukkutíma akstur til höfuðborgarinnar.

Upplýsingar um vetrarleigu eru gefnar á skrifstofu Einingar-Iðju, Skipagötu 14 á Akureyri. Síminn er 460 3600 og netfangið: ein@ein.is

Upplýsingar um Einarsstaði gefur Guðni í síma 861 8310.