Eins og kom fram á vefnum fyrr í vikunni hélt framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins tveggja daga fund á Akureyri og Húsavík í vikunni. Á vef SGS má finna eftirfarandi frétt þar sem nánar er sagt frá fundunum, en um var ræða þriðja fund nýrrar framkvæmdastjórnar sambandsins sem kosin var á þingi SGS í október síðastliðinn. Alls sitja sjö í framkvæmdastjórn SGS, en auk stjórnarmanna tóku tveir starfsmenn sambandsins þátt í fundinum.
Á miðvikdaginn fór hópurinn í heimsókn í Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) og fékk kynningu á fyrirtækinu. Í framhaldinu fundaði stjórnin svo í húsakynnum Einingar-Iðju þar sem ýmis mál voru tekið til afgreiðslu og umræðu, m.a. væntanlegur ungliðafundur SGS sem haldinn verður í júní næstkomandi, fjárhagsstaða sambandsins, skipan fulltrúa í fræðslusjóði, erindrekstur SGS o.fl. Eftir fundinn var ferðinni haldið áfram til Húsavíkur, með stuttu stoppi á Hotel Natur á Svalbarðsströnd.
Á fimmtudeginum héldu fundarhöld áfram með sérstakri áherslu verksvið framkvæmdastjórnar og í framhaldinu mættu fulltrúar frá Norðurþingi og LNS Saga á fundinn til að kynna fyrir gestum þær gríðarmiklu framkvæmdir og þann mikla uppgang sem nú á sér stað á Húsavík og nágrenni. Eftir hádegi fór hópurinn svo í skoðunarferð á Bakka og Þeistareyki til að kynna sér framkvæmdirnar nánar.
Almenn ánægja ríkti með fundinn, bæði móttökurnar og umræður sem fóru fram.