Námskeiðið „Ungir leiðtogar“

Á næstunni stendur ASÍ fyrir námskeiði sem kallast Ungir leiðtogar, en eins og nafnið ber með sér þá er námskeiðið ætlað ungu fólki. Markmið þess er að fræða um verkalýðshreyfinguna og efla ungt fólk sem leiðtoga hvort sem er á vinnustaðnum eða á breiðari vettvangi. Námskeiðið er sniðið að ungum félögum í verkalýðshreyfingunni; trúnaðarmönnum, starfsmönnum stéttarfélaga og ungu fólki í trúnaðarráðum. Tveir félagsmenn Einingar-Iðju munu fara á námskeiðið, þau Sigurpáll Gunnarsson og Guðbjörg Helga Andrésdóttir sem bæði starfa sem trúnaðarmenn hjá félaginu.

Tíðindamaður síðunnar heyrði í Guðbjörgu og Sigurpáli og forvitnaðist um hvernig þeim litist á námið. Guðbjörg segir að henni lítist mjög vel á þetta námskeið. „Það verður örugglega spennandi og fræðandi. Það er líka mjög skemmtilegt að það verður farið til Brussel og fá að kynnast aðstæðum í verkalýðsmálum í öðru landi.“ Sigurpáll tekur undir hennar orð og bætti við að hann væri rosalega spenntur fyrir þessu, „get hreinlega ekki beðið eftir að byrja. Ég er alveg viss um að maður græði slatta á þessu, bæði hluti sem maður mun geta nýtt sér í starfi og daglegu lífi, svo að sjálfsögðu bara upplifunin sjálf, ég tel þetta vera algjör forréttindi að fá að vera partur af þessu.“ Síðar fáum við að heyra aftur í þeim og forvitnast um hvernig til tókst og hvort námskeiðið hafi staðið undir væntingum.

Nánar um námskeiðið

Þrátt fyrir að ungt fólk (18-35 ára) sé stór hópur á vinnumarkaði er virkni þess lítil innan margra stéttarfélaga og aðkoma þess að stjórnum, þingum og ákvörðunartöku innan verkalýðshreyfingarinnar víða of lítil. Hvað Einingu-Iðju varðar er vert að nefna að um 35% trúnaðarmanna sem starfa hjá félaginu eru 35 ára eða yngri og sitja þau einnig mörg hver í ýmsum ráðum og nefndum félagsins. Á næsta aðalfundi félagsins verður jafnframt kosið í fyrsta sinn um meðstjórnanda í aðalstjórn, en það sæti er eyrnamerkt ungum félagsmönnum. 

Námskeiðið samanstendur af þrem námslotum sem miða að því að styrkja ungt fólk í verkalýðshreyfingunni og gera því kleift að koma röddum ungs fólks á framfæri, á vinnustaðnum, innan hreyfingarinnar og úti í samfélaginu. Með námskeiðinu gefst ungum félögum kostur á að öðlast fjölbreytta þekkingu á verkalýðshreyfingunni ásamt því að efla ræðumennsku, framkomu og sjálfsstyrk. Síðast en ekki síst er námskeiðinu ætlað að styrkja enn frekar tengsl og samvinnu ungs launafólks þvert á starfsgreinar og landshluta. 

Fystu tvær loturnar, sem standa í tvo daga, fara fram í Reykjavík í lok mars og í lok apríl. Þriðja lotan, sem stendur yfir í fjóra daga, fer fram í Brussel. Þar verður m.a. farið í heimsókn til ETUC (Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar) og ungliðaþjálfarar frá ETUI (fræðslumiðstöð ETUC) munu fræða nemendur um áskoranir ungs fólks á evrópskum vinnumarkaði þar sem áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar eru farnar að hafa áhrif á störf. Jafnframt verður tekið hús á ITUC (International Trade Union Confederation) þar sem einblínt verður á vel heppnaðar herferðir þeirra. Stærstu heildarsamtök launafólks í Belgíu, FGBT, verða sótt heim þar sem kynntar verða fyrir hópnum þær áskoranir sem samtökin hafa rekist á í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna og þá sérstaklega deilihagkerfið. Þá munu ungliðar FGBT kynna starf sitt og uppbyggingu.