Í gær dæmdi Hæstiréttur að fyrirtækið Ljósaborg ehf. ætti að borga konu, sem hafði starfað hjá fyrirtækinu, vangoldin laun er námu tæplega 1,7 milljónum króna fyrir störf á 11 mánaða tímabili. Konan leitaði til Einingar-Iðju þar sem hún taldi að verið væri að brjóta á henni. Eftir að starfsmenn félagsins höfðu farið yfir hennar mál var því vísað til lögfræðinga félagsins.
Deilt var um það hvort samið hefði verið um rofinn vinnutíma, en fyrir lá að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum sem giltu um starfskjör konunnar.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju segir að þetta sé mjög mikilvægur dómur þar sem víða í sveitum er verið að vinna tvískipta vinnu og ekki gerðir ráðningarsamningar um það. „Þetta sýnir hve ráðingarsamingur er mikilvægur. Ef menn eru í burtu milli mjalta í tvo til þrjá tíma og ekkert kemur fram um það í ráðningarsamningi að um rofin tíma sé að ræða þá er þetta bara samfelldur vinnutími.“